Hekl, skraut og aðrir fylgihlutir er eftir Ros Badger textílhönnuð frá Chelsea Collage of Art en heklbækur á íslensku eru ekki mjög margar og það er því alltaf ákveðin tilhlökkun í gangi hjá mér þegar ég rekst á eina slíka.
Þessi er alveg þess virði að skella sér á eintak. Hún er sett upp fyrir fólk sem er kannski ekki alveg byrjendur en svona nálægt því.
Ég tel mig ekki vera í þeim flokki en ég hafði samt fanta gaman að bókinni.
Myndirnar í henni eru góðar og skýringarmyndir sérstaklega stórar og skiljanlegar. Fyrir þau sem vilja læra að hekla eftir teikningum þá eru stórar og skýrar myndir sem auðvelt er að fara eftir.
Ég prufaði að hekla tvö stykki úr bókinni og leiðbeiningarnar voru einfaldar og auðvelt að fara eftir þeim.
Það eru engir stórir hlutir í bókinni fyrir utan eitt ömmuteppi en mér sýnist að slíkt teppi sé eiginlega skylduverk í heklubókum því þau eru í þeim flestum.
Þarna eru hins vegar litlir og sætir skrauthlutir, töskur, kragar, lampaskermur og fleira.
Fyrir heklufólkið er þetta eiginlega skyldukaup því það er svo gaman að eiga bækur á íslensku með íslenskum leiðbeiningum og ekki sakar það þegar bókin er svona frambærileg og falleg.
Ég gef henni fjórar stjörnur og vona að það eigi eftir að koma fleiri bækur eftir þennan höfund. Bókin er vel þýdd og staðfærð af Eddu Lilju Guðmundsdóttur en vísað er í ýmsar hannyrðabúðir varðandi garn sem hægt væri að nota hverju sinni.
[usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.