Heimska eftir Eirík Örn Norðdahl fjallar um hjónin Áka Talbot og Lenítu Talbot. Þau eru að vísu ekki lengur hjón, þau eru skilin að borði og sæng, en þau haga sér eins og þau vilji vera saman en samt ekki.
Áki og Leníta eru rithöfundar sem af algerri slysni skrifuðu sögu um sama karakterinn. Ekki sömu söguna, alls ekki, en þetta varð til þess að hjónabandið varð að engu og taka nú við ár þar sem hjónaleysin reyna að ganga fram af hvort öðru á allan þann hátt sem þau geta hugsað sér.
Þau búa Ísafirði, hann á hótelinu, hún í gamla húsinu þeirra. Heimurinn er orðinn að einu samfélagsbákni þar sem allir geta séð alla og allt. Nóg er að slá inn í tölvuna nafni eða líkindum einhvers og þá birtist viðkomandi á skjánum og allt sem hann gerir.
Það er því auðvelt að pota í fyrrverandi makann þegar við á, þannig að hann missi ekki af einu einasta framhjáhaldi eða öðru sem máli skiptir til að skapa neikvæðar tilfinningar. Spurning að vísu hvort það er framhjáhald þegar þau er skilin að borði og sæng?
Hvað um það, heimurinn sem þau búa í, snýst um að allir fylgjast með öllum. Um leið og fólk vaknar kveikir það á vefmyndavélum hússins og fyrir utan húsin hanga drónar til að það sé öruggt að fólk detti ekki úr mynd.
Skelfileg heimsmynd en kannski erum við að upplifa agnarbrot af því í dag?
Enginn fer út að ganga án þess að kveikja á tækinu svo allir sjái dugnaðinn, enginn fer út að borða án þess að taka mynd af matnum og nokkrar af viðstöddum þannig að allir sjái hvað það er gaman og maturinn góður. Við erum kannski ekki í vefmyndavél alla daga en það er ekki svo erfitt að setja sig í þau spor að þannig aðstæður gætu komið upp.
NIÐURSTAÐA:
Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þessa bók. Hún er ekki beint skemmtileg en hún er mjög athyglisverð og ég hef staðið mig að því hugsa um hana af til eftir að ég lauk lestrinum. Þetta er ekki þessi dæmigerða skemmtisaga og mér fannst þau hjónaleysin sérlega ógeðfelld bæði tvö. Hún algjör frekja og hann hálfgerð rola. Samskipti þeirra við annað fólk einkennast af því að þau taka og taka en gefa lítið á móti. Það, í takt við þessa skelfilegu heimsmynd, gerir bókina athyglisverða svo ég get alveg mælt með henni.
Fjórar stjörnur! [usr 4.0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.