Gröfin á fjallinu eftir tvíeikið Hjorth og Rosenfeldt er spennusaga í hæsta gæðaflokki. Þetta er þriðja bókin sem þýdd er á íslensku um sálfræðinginn sjálfselska Sebastian Bergman og eins og hinar tvær þá svíkur Sebastian ekki gallharða aðdáendur sína.
Sagan hefst á því að tvær konur í fjallgöngu verða fyrir því að finna fjöldagröf með sex líkum. Morðdeildin undir stjórn Torkel Höglund fær málið til rannsóknar og virðast í fyrstu ekki hafa neitt til að byggja á.
Sagan hverfist um sálfræðinginn Sebastian en hann á í sálarflækjum vegna dauða konu sinnar og dóttur nokkrum árum áður. Hann er afskaplega erfiður maður, hugsar ekki um neitt nema sjálfan sig og gengur fyrir kynlífi. Hann er hinsvegar skarpgáfaður og sérfræðingur í sálarlífi morðingja.
Þetta er ekki ein saga heldur er um margar sögur að ræða sem flækjast hver um aðra uns í lokin að brotin raðast saman og lesandinn skilur loks hvað er að gerast. Í miðjunni er hinsvegar alltaf Sebastian sem talar við fólk með fyrirlitningu, þakkar aldrei fyrir sig, heimtar greiða og almennt böðlast áfram og gengur yfir sem flesta í leiðinni.
En það undarlega er að þó hann sé afskaplega neikvæð og fráhrindandi persóna er ekki hægt annað en hafa samúð með honum og lesandinn fylgist spenntur með því hvernig hann reynir að lokka til sín nýuppgötvaða dóttur án þess þó að hún viti hver hann er. Allar hans gjörðir snúast að því að vera í smá samskiptum við hana sem í upphafi fyrirlítur hann svo mikið að hún getur varla svarað þó hann yrði á hana. Inn í þetta flækist snargeðveik fyrrverandi sambýliskona sem aldrei átti að verða sambýliskona heldur smokraði sér inn á karlinn meðan hann var veikur fyrir. Hann nær ekki að átta sig á því hversu snældubrjáluð hún er fyrr en það verður um seinan og það er með andköf í hálsinum sem bókinni er lokað og byrjað að bíða eftir næstu bók því það er jú ekki hægt að láta þetta enda svona, eða hvað?
Þetta er spennusaga sem heldur manni við efnið og Sebastian hefur lag á að smokra sér innundir þannig að manni fer að þykja óendanlega vænt um hann þó það sé alveg óskiljanlegt þar sem hann er ótrúlega sjálfselskur og önugur persónuleiki en um leið eitthvað svo varnarlaus.
[usr 5.5]Viðtal við höfundana; Hjorth og Rosenfeldt: https://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=6gPDQaFiDdQ
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.