Bækur: Grimmi tannlæknirinn – Hryllingsgrín fyrir börn

Bækur: Grimmi tannlæknirinn – Hryllingsgrín fyrir börn

david-walliamsGrimmi tannlæknirinn er barnabók eftir David Walliams sem margir þekkja úr Little Britain þáttunum.

Honum er margt til list lagt, hann skrifar og leikur í gamanþáttum og skrifar bækur. Nokkrar þeirra hafa þegar komið út á íslensku og er Grimmi tannlæknirinn ein þeirra.

Bókin fjallar um drenginn Álf sem býr einn með fötluðum föður sínum.

Þeir feðgar eru fátækir og hefur Álfur ekki farið til tannlæknis í mörg ár og felur í raun bréfin sem um það berast frá skólanum þannig að faðir hans sjái þau ekki.

En þá gerast þau tíðindi að nýr tannlæknir flytur í bæinn og henni lýst vel á að byrja á því að taka tennur Álfs.

Þetta er barnahryllingssaga sem er í rauninni meira grín en hryllingur. Hún er lipurlega skrifuð og skemmtilega Grimmi-tannlaeknirinnþýdd. Alls konar nýyrði koma fyrir og eru lesendur varaðir við nýjum orðum sem eru óþekkt (og sum hreint bull) um leið og þau koma fyrir. Myndskreytingar eru vel við hæfi og ýta undir skemmtun lesandans. Til dæmis þegar allt varð svart þá eru blaðsíðurnar svartar.

Niðurstaða:

Ég las þessa bók samhliða níu ára unganum mínum og vorum við báðar jafn spenntar og tilbúnar að grípa bókina ef hún var óvart lögð niður. Hún er þykk en það er allt í lagi því letrið er stórt og bókin rennur vel.

Unginn minn var ekki alveg sammála mér þegar við tókum þessa bók til lestrar, fannst hún heldur stór og þykk en hún ánetjaðist strax á fyrsta kafla þannig að ég vil benda foreldrum ungra lestrarhesta endilega að gefa henni séns. Það er þess virði og gæti ýtt undir áframhaldandi lestur, gerði það alla vega á mínu heimili.

Fjórar stjörnur! 4 out of 5 stars (4 / 5)

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest