Ragna Esther var aðeins 19 ára þegar hún flutti með bandarískum eiginmanni sínum vestur um haf. Árið var 1946. Unga, íslenska stúlkan var mjög ástfangin og hlakkaði til þess að hefja sambúð með myndarlega hermanninum sínum á æskustöðvum hans í Oregon.
Ungu hjónin fluttu inn í hvítt, háreist hús í afskekktri amerískri sveit en fyrir á heimilinu voru móðir og bróðir Larrys, aldraður afi hans og tveir móðurbræður. Ekki leið á löngu þar til Ragna Esther skynjaði að undarlegt andrúmsloft ríkti á þessum einangraða sveitabæ. Fljótlega fór Larry að lauma dópi í tebolla konu sinnar á hverju kvöldi og var hún læst inni í herberginu í alls 2 ár. Þar beitti hann hana svæsnu líkamlegu ofbeldi, sem lýst er í smáatriðum í bókinni.
Pyntingabekkur á hlöðuloftinu
Meðan Ragna Esther liggur nær meðvitundarlaus í þessari ómannlegu innilokun verður lesendum ljóst að Larry hefur mök við móður sína og að ástundun sjúklegs sifjaspells er hluti af REGLUM fjölskyldunnar. Stöku sinnum fer Larry með Rögnu Esther upp á hlöðuloft þar sem til staðar er hryllilegur, sérútbúinn pyntingabekkur og þar fer fram svo hrottalegt ofbeldi að ógleði læðist að lesendum. Það er full ástæða til þess að vara viðkvæma við þessum lestri og jafnvel þá sem telja sig flestu vanir. Það er allt önnur upplifun að lesa hefðbundna krimma en bókina Grimmdarlíf – sem er rússíbanareið illskunnar.
Fæðingar í læstu herbergi
Lífsviljinn er þó ekki síður sterk afl en illskan og þegar Ragna Esther fer að mynda smávegis þol gegn dópinu, sem hún fær daglega, eygir hún örlitla von um að geta flúið hina siðblindu og illu fjölskyldu. Hún er þá búin að eignast tvö börn með skrímslinu. Tengdamóðir hennar, sem er jafnframt hjásvæfa sonar síns, fer í hlutverk ljósmóður og tekur á móti tveimur börnum í herberginu sem var fangelsi Rögnu Estherar.
Ekkert samband við Ísland
Það er Melissa Gavin, dóttir Larry af seinna hjónabandi, sem skrifar þessa átakanlegu sögu. Ragna Esther, sem hafði misst allt samband við fjölskyldu sína á Íslandi, hvarf síðar sporlaust og lögreglan í Bandaríkjunum rannsakar enn málið. Í seinni hluta bókarinnar segir Melissa af sinni eigin skelfilegu reynslu af föður sínum og viðbjóðslegum verkum hans gagnvart börnum sínum.
Grimmdarlíf er hreint út sagt martraðarkennd lesning. Ég er hrædd um að ég geti aldrei fundið sætan ilminn af barnaolíu framar án þess að fá gæsahúð af hryllingi.
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.