Stefán Máni ber höfuð og herðar yfir aðra íslenska rithöfunda þegar kemur að töffaraskap. Hann er töffari og bækurnar hans eru sannkallaðar töffarabækur.
Bókin Grimmd er þar engin undantekning. Fólkið í henni er bæði ljótt og grimmt. Ljótt að innan sem utan. Sumir eru þó ljótari en aðrir og grimmdin virðist þeim eðlislæg.
Í bókinni er heimurinn ekki fallegur staður. Græðgin er allstaðar og lítil samkennd er fyrir náunganum. Grimmdin kemur m.a. fram í því að sýna enga miskunn og þeir sem ekki teljast grimmir í bókinni eru þó kaldlyndir.
Sögusviðið er undirheimar Reykjavíkur.
William Smári Clover er ungur maður sem fæddist ekki með gullskeið í munni. Frá fæðingu hefur líf hans snúist um það eitt að komast af. Þegar sagan hefst er hann kominn að ákveðnum tímamótum í viðskiptum sínum við undirheima og þá sem þar stjórna.
Sandra er ung stúlka sem er á aldri við Smára. Leiðir þeirra hafa legið saman á ákveðnum stundum en tilvera hennar er þó öll önnur en hans. Hún er prinsessan í kastalanum sem fær allt sem hún vill. Í upphafi sögunnar strýkur hún frá siðblindum sambýlismanni sínum og hefur á brott með sér mánaðargamla dóttur þeirra. Hann sættir sig ekki við þau hlutskipti og við það hefjast hremmingar hennar fyrir alvöru.
Grimmd er spennusaga frá fyrstu blaðsíðu. Lýsingarnar á glæpamönnunum og átökum þeirra eru spennandi og brútal. Stundum langaði mig að hætta að lesa, loka bókinni og fara að gera eitthvað annað. Það er þó eitthvað við frásögnina sem dregur mann áfram og í raun er ekki í boði að hætta lestri.
Þau sem elska að lesa bækur með grófum lýsingum og mikilli spennu ættu að lesa Grimmd. Þetta er bókin sem þú lest alla nóttina án þess að hugsa hvað tímanum líður. Bókin er gífurlega spennandi og við endalokin var undirrituð hreinlega orðin andstutt af spenningi.
Stefán Máni fer ekkert í felur með þá staðreynd að mannskepnan er bæði breysk og grimm. En þar sem er grimmd þar má líka finna fegurð sem leynist innan um ljótleikann sem segir okkur að ávallt sé til von um eitthvað betra.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.