Gleymdu stúlkurnar er eftir dönsku skáldkonuna Sara Blædel en hún hefur gefið út fjölda bóka og hafa nokkrar komið út á íslensku.
Þetta er einn af mínum uppáhalds norrænu höfundum og ég verð alltaf jafn glöð þegar ég sé að búið er að þýða eftir hana nýja bók. Auðvitað ætti ég að lesa hana á dönsku en gamla skólabókadanskan mín verður síst betri með árunum.
Bókin fjallar um líkfund í skógi. Það er lík af konu og enginn virðist sakna hennar. Það er eins og hún hafi dottið af himnum ofan. Lögreglukonan Louise Rick fær þetta mál en hún er nýbyrjuð með nýja deild, sérstaka mannshvarfardeild. Inn í þetta fléttast drykkfeldur samstarfsmaður, fjölskylda Louise og ýmis gömul mál sem hún hefur kosið að grafa djúpt niðri í minni sínu. Louise er hálf þunglynd á köflum en mér finnst það bara gera hana mannlega. Held ég væri líka þunglynd ef ég þyrfti mikið að vera að vasast inn um lík og þess háttar sem verður ekki á vegi manns á hverjum degi.
Samstarfsmaðurinn er skemmtilega klisjukenndur, sterki löggugaurinn sem er fyllibytta en rosalega klár. Skrítið hvað svona virkar vel í spennusögum. Mér finnst alla vega skemmtilegt að lesa um svona gaur þó skynsemin segi mér að hann myndi nú ekki virka svona vel í raunveruleikanum en hver þarf skynsemi við lestur spennusögu? Ekki ég, ég geri þá kröfu að sagan sé spennandi, aðalhetjurnar sæmilega áhugaverðar og mér er alveg sama þó smá þunglyndi hrjái þær ef það virkar vel í sögunni.
Þetta er ekta sumarleyfisbók og ég mæli með henni ef þú hefur gaman að norrænum löggusögum. Ég ætla að gefa henni fjórar, af því ég las hana í einum rykk og hefði alveg getað lesið aðeins meira.
[usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.