Árni Þórarinsson hefur lengi verið einn af mínum uppáhalds íslensku nútímahöfundum.
Ég bíð eftir bókunum hans og hef hingað til ekki orðið fyrir vonbrigðum. Það var því með gleði í hjarta sem ég settist niður með Glæpinn – Ástarsögu og bjó mig undir spennandi kvöldstund.
Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þetta er mjög spennandi saga en hún er samt allt öðru vísi en það sem hann hefur áður skrifað. Hér er ekki léttur glæpaþriller um Einar blaðamann á ferðinni. Nei hér er allt annað efni og allt annað fólk.
Fyrsta setningin í bókinni er hreinlega frábær opnunarsetning: „Nóttina áður en hann dó svaf hann lítið“. Þetta er mögnuð byrjun og hleypir ímyndunaraflinu lausu. Hver er þetta sem sefur svona illa? Deyr hann í alvörunni eða er þetta myndlíking?
Sagan fjallar um einn sólarhring í lífi þriggja aðila: Hann, Hún og Fríða. Einhver hafði gefið Fríðu loforð um að á þessum degi fengi hún að vita allan sannleikann. Á þessum degi yrði hún nógu gömul til að vita sannleikann. En hver er þessi hræðilegi sannleikur sem hefur skekið líf þessara þriggja mannvera? Hvaða fólk er þetta?
Á ákveðnum tímapunktum var mér næstum óglatt meðan ég las bókina – lýsingarnar á mannlífinu og ástandi sögupersónanna eru svo raunsannar að ég sá þær ljóslifandi fyrir mér og mér leið illa yfir því sem ég sá.
Samúð mín var með honum. Hann er einn kvíðaböggull og loforðið er að éta hann upp að innan en hann sér samt ekki leið út úr því. Ég hafði ekki eins mikla samúð með Henni. Kannski af því Hún er meira yfirdrifinn heldur en Hann og tekst á við vandamálið með öðrum hætti. Og svo er það Fríða sem er búin að bíða og bíða eftir þessum degi sem loksins er runninn upp og ætla þau þá að svíkja hana?
Mér fannst þetta mjög spennandi saga og ég las hana í einni lotu, ætlaði alltaf að fara að loka bókinni en … bara einn kafla enn. Þar til allt í einu er langt liðið á nóttu og bókin búin og mikið var ég fegin að bókin var búin. Þetta er sterk saga um örlög fólks og hvernig andartaks atburðir í lífi einnar mannveru getur breytt örlögum annarra og það jafnvel án þess að viðkomandi viti af því og sé jafnvel nokkuð sama.
Árni sannar það hér einu sinni enn að hann er listafínn penni og mér er óhætt að byrja að bíða eftir næstu bók.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.