Sundraðar fjölskyldur, ofbeldi og fíkniefni koma við sögu í nýjustu bók Árna Þórarinssonar; Glæpurinn – Ástarsaga. Árni er löngu orðinn landsfrægur af krimmaskrifum sínum en hér kveður við nýjan tón hjá honum. Eða hvað?
Þeirri spurningu er ekki mögulegt að svara fyrr en lestri bókarinnar er lokið. Þá fyrst er lesandanum kleift að dæma hvort um raunverulega glæpasögu sé að ræða – eða ástarsögu. Nema hvoru tveggja sé. En gefum höfundinum orðið:
„Þú veist vel að Netið er staðurinn þar sem fólk er afhjúpað eða rægt með lygum og hundelt. Karlar ná sér niðri á konum og konur á körlum, strákar á stelpum og stelpur á strákum. Og enginn ber ábyrgð. Þetta veistu.“
Ískaldur hrollur fór um hann. Stefnir seildist eftir fartölvunni á borðinu, sneri henni að sér og sló inn nokkrar skipanir. Síðan sneri hann skjánum að honum, settist við hlið hans og smellti á play. Honum fannst eins og hjartslátturinn færi yfir öll hraðamörk og glymdi um veitingastaðinn. Stefnir rýndi stjarfur á myndbandið sem greinilega var tekið á farsíma. Konan var í rauðum flauelsjakka, slitnum gallabuxum og skítugum strigaskóm. Hún sat flötum beinum á gangstétt fyrir utan bar við Laugaveginn og orgaði. Einhvern tíma hafði hún kannski verið falleg en nú líktist hún dýri. Ýlfur hennar var orðlaus angist, öskrin undarleg blanda af hamslausri reiði og sárri þjáningu.“
SÁLFRÆÐINGUR MEÐ TÝNDA SÁL
Árni Þórarinsson er snjall samfélagsrýnir og dregur upp dökka og dapra mynd af Íslandi eftir hrun. Spilling, óreiða og misskipting valds er nær daglegt fóður fjölmiðla. Söguhetjan er óhamingjusamur, fjarrænn sálfræðingur; týnd sál sem reynir af veikum mætti að púsla saman lífi sjúklinga sinna á meðan hans eigin veröld riðar til falls …
„Freud, fokking Freud,“ hugsar hann bitur. Angist hans má að mestu rekja til vel varðveitts leyndarmáls sem afhjúpast í lokin – leyndarmál sem varðar sálarheill fleiri mannslífa.
Spennandi sálfræðidrama með mjög óvæntum endalokum!
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.