Mér finnst mjög gaman þegar í fangið á mér detta góðar íslenskar spennusögur eftir höfund sem ég hef ekki lesið fyrr. GILDRAN eftir Lilju Sigurðardóttur er nýkomin út og er þetta jafnframt þriðja bók höfundar.
Sonja er nýfráskilin og á eitt barn sem hún missti forræðið yfir en fyrrverandi maður hennar er stórkarl í bankaheiminum.
Þar sem Sonja var gripin við framhjáhald og ekki bara framhjáhald, heldur beinlínis í bólinu með annarri konu – þá lét hún honum allt eftir og er því eignalaus, atvinnulaus og án barnsins síns. Þetta er ekki auðvelt og eina leiðin úr vandanum er að smygla kókaíni til landsins. Það ætlar hún að gera þar til hún hefur náð nægum peningum til að koma undir sig fótunum.
Það er gefið í skyn að hún sé með lágt sjálfsmat, ómenntuð, peningalaus og ráðalaus en svo bara rúllar hún smyglinu upp eins og ekkert sé.
Inn í þetta fléttast ástarsamband við Öglu sem vinnur með fyrrverandi manni Sonju og vill þar að auki alls ekki viðurkenna að hún sé lesbísk þó hún dragist að Sonju.
Bók sem kom verulega á óvart
Mér finnst þetta mjög spennandi og skemmtileg bók, hún kom mér verulega á óvart. Það er spenna, það eru skemmtilegar persónur og maður kannast við umhverfið. Sérstakur saksóknari, bankafólkið með villtu veislurnar, spillti lögfræðingurinn, blessað barnið sem vill vera hjá mömmu sinni. Það bara hreinlega gerist ekki betra í glæpasögum.
Mér fannst endirinn fínn, kannski hefði mátt spila öðru vísi úr honum en til hvers, þetta virkaði alla vega fyrir mig. Það eina sem mér fannst ótrúverðugt er hvað Sonja er flinkur smyglari. Það er gefið í skyn að hún sé með lágt sjálfsmat, ómenntuð, peningalaus og ráðalaus en svo bara rúllar hún smyglinu upp eins og ekkert sé.
Mér fannst það svona það eina sem var ekki alveg að gera sig. En kannski ef fólk lendir í sjálfheldu með lífið eins og gerist hjá henni og þarf að berjast fyrir barninu sínu þá opnast aðrar leiðir og fólk blómstrar þó þetta sé kannski ekki atvinnutækifærin sem ég myndi ráðleggja fólki að grípa.
Þetta truflaði mig samt ekki og ég naut þeirrar ánægju að lesa spennusögu sem ég tímdi ekki al leggja frá mér fyrr en hún var fulllesin.
Hikstalaust fjórar stjörnur og ég þarf að kíkja á fyrr bækur höfundar. [usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.