Sagan Geim fjallar í grófum dráttum um HP, smákrimma sem er utanveltu í samfélaginu og lifir bara frá degi til dags. Einn daginn finnur hann farsíma í lest og það virðist vera eins og síminn sé sérstaklega ætlaður honum.
HP býðst að taka þátt í leik sem í fyrstu virðist vera saklaus en fljótlega uppgvötar HP að mörkin á því hvar leikurinn endar og raunveruleikinn byrjar verða æ óljósari.
Sagan flakkar síðan á milli HP og Rebeccu Normen, sem ólíkt HP, er samviskusöm, varfærin og á góðri leið með að vinna sig upp í konunglegu lífvarðasveitina. Henni berast þó sífellt nafnlaus skilaboð frá einhverjum sem veit fullmikið um fortíð hennar.
Vel skrifuð og virkilega spennandi lesing
Til að byrja þarf lesandinn að venjast því tungumáli sem HP talar en hann notast mikið við enskuslettur og er talsvert barnalegur í tali. Það tekur tíma að venjast því en samtímis gefur það lesandanum einnig innsýn inn í hversu auðtrúa og einlægur HP er.
Bókin er ekki aðeins spennandi aflestrar heldur einnig full af húmor en líka ádeilu á upplýsingasamfélagið sem við búum í.
Flestir ganga um með snjallsíma í dag og gera sér ekki grein fyrir því að hægt er að fylgjast með hverju spori sem við tökum í gegnum uppáhalds samskiptatækin okkar. Stóri bróðir horfir á okkur á móti úr snertiskjánum og veit ávallt hvað næsta skref er.
Geim er skrifuð af Anders de la Motte en þetta er frumraun hans í skáldsagnaskrifum. Hann er yfirmaður öryggismála hjá alþjóðlegu tölvufyrirtæki og starfaði áður hjá lögreglunni í Stokkhólmi. Fyrir Geim hlaut hann nýliðaverðlaun Sænsku glæpasagnaakademíunnar árið 2010.
Spennandi og skemmtileg lesning, en getur ollið tímabundnu tortryggni í garð snjallsíma.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.