Gæðakonur eftir Steinunni Sigurðardóttur… Úff, hvað ég varð fyrir miklum vonbrigðum því ég hef áður lesið bækur eftir Steinunni sem mér fannst mjög góðar!
Ég viðurkenni að bókin er vel skrifuð, það er að segja, hún er ljóðræn og mörg falleg orð í henni og sumar lýsingarnar hreint dásamlegar. En þá er það komið.
Ég gat engan veginn tengt við söguþráðinn, fannst hann kjánlegur og gamaldags. Mér fannst María ágætis týpa og skemmtilegt að lesa það sem skrifað var um hana. Ég skildi þetta þannig að María væri kona sem pældi lítt í útliti sínu, gekk í gömlum fötum og málaði sig afar sjaldan. Hún var samt fullviss um að allar konur sem á hana litu væru að reyna að komast yfir hana og fá hana í rúmið? Hvað var það eiginlega? Og Gemma! Hvað var hún? Var hún til í alvörunni eða hugarfóstur kynsveltrar konu?
Bárður var áhugaverður og samband þeirrar Maríu fannst mér þannig að ég hefði viljað lesa meira um þau tvö og hvernig þau þróuðust saman eða ekki saman.
Ég er heitur aðdáandi að ævintýralegum og absúrd bókum en þessi bók var bara ekki skemmtileg eða áhugaverð.
Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að skrifa meira… Jú, mér fannst litla ástarsagan sem var laumað þarna inn í svona algerlega á hliðarlínunni, hún var skemmtileg og ég hefði viljað lesa um hana. Ekki sögu Gemmu og um einhverja fáránlega eyju, uppreisn kvenna og barsmíðar karla.
Það náði mér ekki og ég las það hratt og vel og var því fegnust hvað bókin er stutt. Ég gef henni tvær og hálfa stjörnu.
[usr 2,5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.