Fyrirvari eftir Renée Knight fjallar um fortíðina, hefndarþrá, rangar ákvarðanir og sitthvað fleira sem hendir fólk á langri lífsleið.
Þetta er bók um hefnd og hvernig fólk sér ekki út fyrir hefndarþorstann. Hver veit sögu einhvers ef hann var ekki á staðnum? Er hægt að dæma án þess að tala við alla aðila?
Catherine fær senda til sín bók sem henni finnst vera spennandi allt þar til hún uppgötvar að sagan er um hana sjálfa. Atburðir sem áttu sér stað fyrir tuttugu árum eru dregnir upp og spilað með persónurnar fram og til baka. Hver veit leyndarmálið hennar? Hver skrifaði þessa bók og sendi henni?
Stephen Brigstocke er kennari á eftirlaunum. Kona hans er látin og þegar hann finnur handrit sem hún hefur skrifað finnst honum það fyrirtaks hugmynd að ná fram hefndum með því að gefa út bókina.
Hatur og hefndarþorsti
Sagan er skrifuð út frá þeim báðum, Catherine og Stephen. Hann er uppfullur af hatri, hún er gefast upp af hræðslu. Mér fannst Stephen heldur leiðinlegur karl sem tekur ákveðin mál í sínar hendur án þess þó að vita forsögu þeirra og það þó hann kannski eigi að vita betur.
Hömlulaus reiði eiginmannsins Roberts fannst mér líka truflandi. Þetta eru atburðir sem gerast fyrir 20 árum en þrátt fyrir það staldrar hann ekki við eitt einasta augnablik til að spyrja konuna sína um hennar hlið. Hann efast ekki í sekúndu og saman ýta þeir Stephen henni í átt að hengifluginu.
Ofsafengin reiði
Það er erfitt að segja frá söguþræðinum án þess að koma upp um hann. Kaflarnir skiptast milli aðalpersóna og lesandi telur sig vera í nokkurri vissu um hvað gengur á. Endalokin koma hinsvegar nokkuð á óvart og ég var sátt við hvernig bókin endaði. Finnst hún eiginlega ekki hafa getað endað öðruvísi. Mér fannst þessi saga samt ekki alveg nógu spennandi. Söguþráðurinn gengur alveg upp en ofsafengin viðbrögð fólksins tuttugu árum síðar finnst mér ótrúverðug svo ég segi bara alveg eins og er. Að mínu mati er þetta enn ein bókin sem er keyrð upp í hæstu hæðir án þess að það sé nægileg innistæða fyrir því.
Bókin er gefin út hjá JPV árið 2016 og er 336 blaðsíður.
Niðurstaða: Fljótlesin saga sem skilur ekki mikið eftir sig. Þetta er spennusaga en spennan er ekki nógu hröð fyrir mig. Ég gat auðveldlega lagt hana frá mér án þess að spá nokkuð í hvort ég væri að missa af einhverju. Góð spennusaga fyrir mína parta er þannig að ég get bara ekki lagt hana frá mér fyrr en ég er búin. En þetta er allt lagi saga þó ég hafi reiknað með meiru. Þrjár og hálf stjarna.
Þrjár og hálf [usr 3,5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.