Dökk er framtíðarmyndin í unglingasögunni Múrinn eftir Sif Sigmarsdóttur en mikið svakalega var ég ánægð með þessa bók. Ég á mér langa sögu af lestri framtíðarsögubóka og hingað til hefur ekki verið mikið úrval um slíkar bækur eftir íslenska höfunda.
Þessi bók er alveg þess virði að kúra sig og njóta samvistanna við Freyju og vini hennar í framtíðarborginni Dónol. Þar ríkja harðneskjulegar reglur og fólkið lifir í stöðugum ótta við lífvarðasveitina.
Við fimmtán ára aldur fær fólkið í borginni úthlutað framtíðarstörfum og mun starfa við það til æviloka. Allt er grátt, ekkert rafmagn og múr umlykur borgina til að halda hinum utanaðkomandi úti.
Þetta er hin fínasta skemmtun og ekki bara fyrir unglinga heldur líka fyrir fullorðna sem elska framtíðarsögur.
Mér finnst þessi bók ekki gefa Hungurleikunum neitt eftir og auðvitað er stór plús að sagan gerist á Íslandi þó landið sé allt öðru vísi en það sem við þekkjum í dag.
Sif skilur lesendur eftir í lausu lofti í lokin enda hefur hún gefið út að bækurnar um Freyju verða allavega tvær og jafnvel fleiri og þá er bara að byrja að hlakka til!
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.