BÆKUR: Framúrskarandi vinkona – ótrúlegt líf í Napólí – Fjórar stjörnur!

BÆKUR: Framúrskarandi vinkona – ótrúlegt líf í Napólí – Fjórar stjörnur!

Napoli,_1960s (1)Framúrskarandi vinkona er skáldsaga eftir ítalska höfundinn Elena Ferrante, fyrsta bók af fjórum um vinkonurnar Lilu og Elenu.

Þessi hluti fjallar um æskuár þeirra í Napólí á árunum milli 1950 og 1960. Mér finnst þetta alveg mögnuð bók og hún er alveg pökkuð af efni. Það er nefnilega svo misjafnt hvort tvær jafnlangar bækur eru með jafnmikið efni en þessi er með efni og innihald fyrir allan peninginn.

Höfundurinn, Elena Ferrante, er einn þekktasti rithöfundur Ítala í dag en þó veit enginn hver hún er. Hún hefur aldrei látið taka af sér mynd og neitar að koma fram. Haft er eftir henni að bækurnar hennar tali fyrir sig sjálfar og það er alveg rétt.

Samkeppni frá fyrstu tíð

framurskarandivinkona

Elena og Lila eru jafngamlar og á milli þeirra ríkir samkeppni frá fyrstu tíð. Þær eru vinkonur sem alltaf eru í keppni. Lila er hugrakkari og afburða klár í kollinum. Elena þarf að hafa aðeins meira fyrir hlutunum en samkeppnin drífur hana áfram þannig að hún stendur sig yfirleitt betur en hefði kannski verið ef Lilu hefði ekki notið við.

Elena fær að halda áfram skólagöngu en Lila þarf að hjálpa fjölskyldu sinni. Þegar Elena fær falleinkunn læra þær saman um sumarið og Elena flýgur inn með glans þó hún hafi ekki haft efni á einkakennslunni sem skólinn vildi að hún fengi.

Faðir hendir barni út um glugga

Það er mikil fátækt og fjölskyldurnar í hverfinu fylgjast með hver annarri í blíðu og stríðu þó enginn skipti sér næsta manni. Það t.d. þykir ekkert tiltökumál þó faðir hendi barni einu út um gluggann á annarri hæð. Barnunginn stendur bara upp og haltrar í burtu.

Mönnum er laus höndin í uppeldinu og orð föðurins eru lög. Bræður gæta systra sinna og vaða óhikað í næsta strák ef þeim finnst að systur sinni vegið. Mjög sérstakur heimur. Ákveðnar fjölskyldur njóta meiri virðingar en aðrar og geta nokkurn veginn gert það sem þeim sýnist. Stéttskiptingin er mikil.

Napólí og lögmál hennar

Það er skemmtilegt að lesa um þennan tíma og hvernig hverfið virkaði. Fólkið talar sína eigin mállýsku, tungumál Napóliborgar og notar ítölsku í skólanum og/eða þegar það vill sýna að það sé aðeins yfir aðra hafið. Það eru engir stórir hlutir sem gerast í þessari bók, ekkert heimsyfirráð eða dauði, þetta er einfaldlega saga um fólk og samskipti, örlög og hvernig líf ólíkra einstaklinga getur tvinnast saman.

Í lok bókarinnar eru ákveðin tímamót hjá vinkonunum og virðist sem leiðir þeirra munu ekki liggja saman lengur. Þær eru komnar á tvo ólíka staði og það verður gaman að fylgjast með því hvað verður um þær og hvernig vinskapurinn mun þróast.

Niðurstaða: Þetta er skemmtileg saga um tímabil sem nú er liðið. Mér finnst alltaf gaman að lesa bækur sem lýsa ákveðnu þjóðfélagi, hvernig fólkið lifir og starfar. Þetta er fjölskyldusaga um ástir og dramatík, – mikla dramatík og hvernig ævi fólks breytist með tímans rás.

Fjórar stjörnur! 4 out of 5 stars (4 / 5)

PS. Hér er myndband þar sem talað er um höfundinn sem hefur alltaf farið huldu höfði. Áhugaverð manneskja. 

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest