Bækur: Fórnarlamb án andlits – eru morð réttlætanleg?

fornarlambanandlitsFórnarlamb án andlits er sænsk spennusaga eftir Stefan Ahnhem og er fyrsta bók höfundar.

Bókin fjallar um lögregluforingjann Fabían Risk sem er að flytja aftur til borgarinnar þar sem hann ólst upp, í gamla hverfið sitt. Lesandinn fær á tilfinninguna að það hafi eitthvað komið upp í fyrra starfi sem ekki er í lagi. Hann byrjar í nýju starfi heldur skyndilegar en hann ætlaði sér þegar smíðakennari grunnskólans finnst myrtur í smíðastofu skólans. Þetta er skólinn sem Fabían sótti sem barn og unglingur og smíða kennarinn var bekkja félagi öll árin. Nokkrum dögum seinna er annar úr þessum sama bekk drepinn.

Fórnarlamb án andlits er spennusaga af gamla skólanum þar sem margar sögur fléttast saman í eina. Það er Fabían Risk og samskipti hans við fjölskyldu og tilvonandi samstarfsfélaga. Hann er nefnilega ekki byrjaður í nýja starfinu þó hann sé kominn á kaf í morðmálið. Síðan eru það dagbókarfærslur barns eða unglings sem verður fyrir grófu einelti. Er þetta dagbók morðingjans?  Þegar lögreglan telur sig vera búin að finna morðingjann þá kemur upp samúð með þeim aðila. Eru morð einhverntíma réttlætanleg?

Þetta er saga um hefnd og hefndarþorsta. Hvernig langvarandi einelti getur brotist út í andstæðu sína þannig að eineltisfórnarlambið verður gerandi. Hver getur svo sem sett út á það? Lesandinn fær að skyggnast inn í huga morðingjans eða er það einhver annar? Sagan er full af krókum og beygjum og alltaf þegar lesandinn er fullviss um að nú viti hann hver morðinginn er, þá hrekkur hann til baka á upphafsreit.

Þetta er þrælspennandi bók og aldrei slíku vant þá set ég ekkert út á lengdina, bókin er um 500 blaðsíður og það verður að játast mér fannst það passlegt. Ég bíð eftir næstu bók eftir Stefan Ahnhem en mér skilst að þetta sé fyrsta bókin í þríleik um Fabían Risk.

Fjórar spennustjörnur 4 out of 5 stars (4 / 5)

Fórnarlamb án andlits er gefin út hjá Uglu, 2016 og er 511 blaðsíður

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

Færsla: Bækur: Fórnarlamb án andlits – eru morð réttlætanleg?