Björn drepur hund. Maður drepur björn. Í maga björnsins finnast ekki aðeins leyfar hundsins heldur einnig handarbein úr manni.
Í litla bænum Kiruna í Svíþjóð hefur verið framið morð og eins og svo oft í bókum Åsu Larsson þá koma fortíð og nútíð saman við lausn málsins.
Í nútíðinni eru það lögfræðingurinn Rebecka Martinsson og yfirlögregluþjónninn Anna-Maria Korpi sem rannsaka morðið á Sol-Britt Uusitalo og í fortíðinni er fjallað um líf Elinu Pettersson langömmu Sol-Britt.
Í húsi Sol-Britt finnst einnig 7 ára sonarsonur hennar sem að öllum líkindum hafði séð morðingjann en áfallið varnar honum máls. Handarbeinið í maga björnsins tilheyrir föður Maj-Sol. Flókið? Nei þegar þetta fléttast saman þá verður þetta ótrúlega lítið flókið en Åsa kann þá list að gera flóknustu smáatriði þannig að lesandinn hugsar „já auðvitað“.
Fórnargjöf Móloks er fimmta bók Åsu sem kemur út á íslensku og fjalla þær allar um lögfræðinginn Rebecku Martinsson sem flyst aftur til Kiruna eftir að amma hennar deyr. Rebecka er mjög fær í sínu starfi en að þessu sinni er henni bolað frá rannsókn málsins af samverkamanni sem er framapotari af verstu gerð. Hún fer því í sjálfskipað leyfi og skoðar málið á eigin spýtur.
Hún berst við sína innri djöfla eins og best hún getur um leið og hún fer eftir visbendingum sem ekki liggja alltaf í augum uppi. Samband hennar við kærasta í stórborginni er flókið og spilar þar inn í óöryggi sem flestir geta eflaust samsamað sig við – á ég að hringja, á ég ekki að hringja?
Sagan er ótrúlega spennandi og fléttan gengur vel upp. Lesandinn fær áhuga fyrir barninu sem að öllum líkindum sá morðingja ömmu sinnar og lögregluþjóninum Krister sem er sá eini sem drengurinn hleypir nálægt sér.
Krister er jafnframt skotinn í Rebecku en þjáist af óframfærni þar sem hann lenti í eldsvoða sem barn og er þar af leiðandi afskræmdur í framan.
Þegar þetta kemur allt saman verður úr mjög spennandi saga sem óhætt er að mæla með. Þetta er saga sem er lesin í einum rykk.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.