
“Ég sat í leigubíl og velti fyrir mér hvort ég væri of fínt klædd fyrir kvöldið þegar ég leit út um gluggann og sá mömmu þar sem hún rótaði í gámi.”
Glerkastalinn (2005) er bók skrifuð af Jeannette Walls og byggir á æviminningum hennar en hún ásamt systkinum sínum fékk vægast sagt sérstakt uppeldi.
Foreldrar þeirra stóðu í þeirri meiningu að besta leiðin til að ala upp börn væri að láta þau óáreitt. Fyrir vikið fengu þau mikla ábyrgð ung að aldri og þurftu í raun að þroskast hraðar en aðrir jafnaldrar þeirra.
Ekki nóg með að þau voru farin að taka ábyrgð á sínu eigin lífi snemma á lífsleiðinni heldur kom það oft upp að þau þurftu að taka ábyrgð á foreldrum sínum líka. Í þessu samhengi kemur bókin óbeint inn á meðvirkni sem er svo algeng í fjölskyldum alkóhólista. Faðir Jeannette var afburða gáfaður og sjarmerandi en einnig mikill alkóhólisti.
“Hófstilltar og fallegar endurminningar … Máttur Glerkastalans felst í sjónarhorni barnsins og væmnislausum texta.” -The Village Voice
Ég er algjörlega sammála þessum orðum gagnrýnanda Village Voice. Þrátt fyrir frásagnir af dapurlegri æsku sinni skrifar Jeannette sögu sína án þess að gera sig að fórnarlambi sem hún gæti svo hæglega gert miðað við allt sem hún mátti þola sem barn og unglingur.
“Winners never quit and quitters never win.”
Þrátt fyrir ömurlegar aðstæður stóð Jeannette einmitt uppi sem sigurvegari í sínu lífi. Það er að mínu mati boðskapur og kjarni bókarinnar.