Fimmtíu gráir skuggar eftir E. L. James er þríleikur og kom fyrsta bókin út árið 2011. Gagnrýnendur bókanna voru ekki mjög hrifnir en konur um allan heim elskuðu bækurnar og talað var um húsmæðraklám. Léttfjólubláar bækur fyrir konur.
Á næsta ári, á Valentínusardaginn sjálfan, er ætlunin að út komi fyrsta myndin um ástarævintýri Christians og Anastasiu og í tilefni af því ákvað ég að setja niður nokkra punkta um bækurnar. Myndin verður með Jamie Dornan og Dakota Johnson í aðalhlutverkum
Og hvað fannst mér?
Jú, ég elska þessar bækur en hvers vegna veit ég ekki því þær eru illa skrifaðar, persónurnar óþolandi og söguþráðurinn mjög undarlegur.
Aðalsöguhetjurnar eru Christian Grey forríkur athafnamaður, ættleiddur á unga aldri af ríkum foreldrum og Anastasia Grey ung stúlka sem er að útskrifast úr háskóla og þekkir ekkert inn á lífið. Christian Grey er draumur allra kvenna eða er hann það? Ef maður stendur aðeins til hliðar við söguna og skoðar hann þá er hann maður sem allar konur ættu að taka stökkið frá og hlaupa eins langt frá og þær komast.
Hann er frekur, ruddalegur og afbrýðissamur eltihrellir. Fyrir utan þessa augljósu kosti þá elskar hann að beita konur sínar ofbeldi og vill helst að þær séu marðar og bláar á þeim stöðum sem ekki sjást. Hinn besti kostur ekki satt?
Anastasia hin unga sér bara góðu hliðarnar við sinn yndislega Christian Grey, er sakleysið uppmálað í byrjun en er fljót að breytast í kynlífsmaskínu. Hún skilur ekki einföld tilmæli, hvað þá fyrirmæli og gerir yfirleitt allt þveröfugt við það sem unnustinn segir henni eða biður hana að gera.
Hann biður hana t.d. að nota ekki tölvupóst heldur senda sér SMS skilaboð og auðvitað sendir Anastasia þá eingöngu skilaboð í tölvunni. Hún er veikbyggð og klaufsk en getur skotið af byssu á við meðal hermann og kann sjálfsvarnarlistir upp á tíu fingur (ég kaus að leiða þessar andstæður í fari hennar algjörlega hjá mér því annars hefði ég orðið alveg snar).
Sögurnar þrjár eru langdregnar og endurtaka sig í sífellu en þrátt fyrir alla þessa augljósu „kosti“ þá elskaði ég þessar bækur.
Ætli það sé ekki þessi rómantíska hugmynd að bjarga manninum? Gera hann betri en hann er? Ekki skemmir það ef maðurinn er óhemju myndarlegur, vel vaxinn og ríkur. Draumur allra kvenna.
Ég ætla ekki að skrifa neitt um söguþráðinn því hann er svo veikur að ef ég skrifa eitthvað um hann þá stendur ekki steinn yfir steini í bókinni. Læt mér nægja að segja að annað hvort elskar þú þessar bækur eða hatar þær, held það sé enginn millivegur.
Ég ætla að gefa bókaflokknum þrjár stjörnur, ég get ekki gefið þeim meira samviskunnar vegna og fer hálf hjá mér að setja á þær þrjár. Hins vegar las ég þær með slíkri áfergju að það að gefa þeim minna væri líka móðgun.
[usr 3,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.