Undanfarið hefur sería E.L. James um þau Christian Grey og Anastasiu Steele riðið heimsbyggðinni – næstum því að fullu.
Hvert sem litið er eru auglýsingar, fréttir, blogg, sketsar eða samræður um þessar svakalegu bækur sem eiga að vera það svæsnar að húsmæður í Bandaríkjunum þustu út í búðir í æsingi til þess að vera fyrstar til að koma höndum sínum yfir nýjustu bókina í seríunni.
Æðið er komið til Íslands og nú seinast kom út önnur bókin í seríunni sem ber heitið Fimmtíu gráir skuggar.
Fimmtíu dekkri skuggar hefst þegar Anastasia og Christian eru nýhætt saman eftir að hafa verið að hittast í nokkrar vikur og Ana er búin að skila Christian Audi-num, MacBook Pro tölvunni og Blackberry-símanum sem Christian gaf henni á þessum um það bil tveimur vikum. Þessi bók fjallar samt sem áður um sambandið þeirra á milli sem hefst fljótlega aftur og þá er það ekki alveg jafn afbrigðilegt og það var áður.
Ég ætlaði aldrei að lesa þessar bækur en svo var ég farin að sjá svo marga í kringum mig byrja að lesa þær að einskær forvitni rak mig til þess en því miður get ég ekki sagt að ég sé ánægð með þá ákvörðun.
Helsta ástæðan fyrir því að ég er núna byrjuð á þriðju bókinni er að ég er alltaf að vona að Anastasia jafni sig á þessu höfuðhöggi sem hún hlýtur að hafa orðið fyrir og hlaupi eins hratt og hún getur í burtu.
Tilfinningin er nákvæmlega sú sama og ég fékk þegar ég las Twilight á sínum tíma. Líkt og Bella er Anastasia ung og viljasterk kona sem lætur engan segja sér hvað hún á að gera eða hvað hún vill, þangað til þær hitta draumaprinsinn! Þá allt í einu láta þær mennina ráða sér í einu og öllu nema þær sýna einhvern smá persónustyrk einstaka sinnum, svona þegar höfundinum finnst vanta meira drama í söguþráðinn.
Kærastar þeirra beggja eiga að vera fallegri en allir lifandi menn meðan þær eru með mjög lágt sjálfstraust. Á sama tíma eiga þær að vera mjög fallegar líka (líklega ástæðan fyrir því að þær leyfa þeim að ráðskast með sig fram og til baka). Báðir kærastar eiga fullt af peningum og bera þær á höndum sér sem er alveg “svakalega rómantískt”.
En bækurnar urðu víst ekki frægar fyrir söguþráðinn eða persónusköpunina heldur fyrir svæsnar kynlífslýsingar sem ræstu kynferðislega staðnaðar húsmæður um gervöll Bandaríkin.
Ég verð að segja að þær eru ekki svæsnari en svo að í annarri bókinni byrjaði ég að fletta yfir kynlífslýsingarnar af því þær voru orðnar svolítið mikið þreytandi. Merkilegt nokk því Christian virðist hafa mjög takmarkað úthald og lýsingarnar þar af leiðandi oft frekar stuttar.
Bækur E. L. James eru samt alveg ágætis afþreying, þó mér finnist helst til mikið gert úr því hvað ástin er blind og að lífið sé tilgangslaust og grátt án hennar.
Ég mæli þó ekki með þeim fyrir þá sem halda að verið sé að leggja í eitthvað meistaraverk, frekar fyrir fólk sem bara vantar eitthvað að lesa eða sem hreinlega hafa ekki ímyndunarafl til þess að koma sér af stað sjálfir í að gera eitthvað annað en, já.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.