Í bókinni Fantasíur sem Hildur Sverrisdóttir ritstýrði má finna 51 frásögn íslenskra kvenna um kynóra, eða fantasíur þeirra.
Bókin er spennandi, dularfull, erótísk og funheit skemmtun. Frásagnirnar eru fjölbreyttar, sagðar í söguformi, textabrotum og sem hugleiðingar. Sem sagt eitthvað fyrir alla!
Að eðlisfari er ég mjög forvitin kona svo lesturinn var mjög skemmtilegur. Þarna fær maður að kíkja inn í hugsanir annara og þær eru greinilega mjög fjörugar margar hverjar. Fólk hefur skemmtilegt hugmyndaflug og flest öll höfum við nú fantasíur um hitt kynið, sama kynið …tja já eða bæði. Það kemur mjög greinilega fram í bókinni.
Það sem mér finnst sniðugast við þessa bók er að hún hentar fullkomlega á náttborðið hjá öllum. Húslestur, eða svefnherbergislestur eftir að í bólið er komið, er tilvalin sem forleikur hjá pörum. Lesa eina og eina fantasíu fyrir hvort annað og hafa gaman af þeim. Bara eldheit skemmtun!
Þessi bók er fyrir alla, konur sem kalla. Alla sem áhuga hafa á leyndardómum mannfólksins, vilja njóta lífsins og líkamans og að auki fullkomin fyrir fólk sem vill hressa upp á samlífið og sambandið.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.