Eleanor og Park er eftir Rainbow Rowell og flokkast sem „Young adult“ bókmenntir. Þessi bók kom mér ánægjulega óvart og ég virkilega naut þess að lesa hana.
Í grófum dráttum fjallar bókin um Eleanor, nýju stelpuna í skólanum, sem gengur í furðulegum fötum og er kannski aðeins í þykkara lagi, og Park sem er af asískum ættum.
Eleanor býr við skelfilegar heimilisaðstæður sem hún vill ekki að neinn viti af. Park á hinn bóginn kemur úr góðri fjölskyldu og veit ekki hvað og hvers vegna Eleanor er eins og hún er. Smám saman gerist eitthvað og þau tengjast, ekki með neinum látum, heldur hljóðlega og fallega. En þau eru ekki ein í heiminum og það kemur að því að eitthvað verður að láta undan.
Þetta er alveg yndisleg bók og aldrei slíku vant þá hefði hún að mínu mati mátt vera miklu lengri. Ég naut hverrar blaðsíðu, líka þegar ég las um allt þetta vonda og milli línanna hvað væri í raun og veru að gerast.
Þessi bók fékk heilmikla athygli þegar hópur foreldra í skóla í Minnesota krafðist þess að bókin yrði fjarlægð úr bókasafninu því hún væri ruddaleg og klámfengin.
Bókin fékk samt að halda sér í safninu og Rainbow Rowell lét hafa eftir sér að þetta sem fólk kallaði „ruddalegt og klámfengið“ væri veruleiki sem mörg börn upplifðu daglega.
Þessi bók var valin sem ein af 10 bestu bókum ársins 2013 hjá Amazon og hefur einnig fengið fleiri verðlaun auk þess sem líklega verður gerð mynd eftir henni.
Ég mæli 100% með þessari bók fyrir alla sem vilja lesa krúttlega ástarsögu ungmenna en um leið uppeldisaðstæður sem ekkert barn eða unglingur ætti að þurfa að ganga í gegnum. Held að þetta sé sú bók sem hefur komið mér mest á óvart á þessu ári, ánægjulega á óvart.
[usr 5,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.