Ekki þessi týpa er nýútkomin bók eftir Björg Magnúsdóttur og er hún fyrsta bókin sem Björg skrifar en Björg hefur skrifað ótalmargar greinar og pistla á netinu síðustu ár enda frábær penni.
Bókin er um fjórar vinkonur sem kynntust í barnaskóla. Stelpurnar eru 26 ára og á markaðnum eins og sagt er. Þær eru stútfullar af allskyns hugmyndum og hafa sterkar skoðanir á hinum ýmsum málefnum sem eru bráðskondnar og skemmtilegar. Þrjár af þeim eru að deita og fær lesandinn góða innsýn inn í deit-heiminn eins og hann er í dag með öllum sms-unum, facebook og ruglingslegum skilaboðum.
Af hverju svarar hann ekki sms-inu?
Má maður svara sms-i strax í byrjun sambands eða á maður að bíða í smá tíma og láta gaurinn eltast aðeins við sig? Ef gaurinn vaknar á laugardegi fyrir klukkan tíu og byrjar á því að baka bananabrauð og þrífa er hann þá ekki örugglega hommi? Þessar og fleiri svona spurningar eru algengar í bókinni og eru algjör vísbending á hláturskast þegar þær eru útskýrðar.
Tengdaforeldrar koma líka við sögu og eins og við vitum flest geta þau tengsl oft verið erfið og viðkvæm en þeim er líst með ákaflega skemmtilegum hætti í bókinni. Tengaforeldar hennar Ingu eru forrík og hafa mokað peningum í son sinn og tengdadóttur. Tengamamman vill endilega ráða öllu sem viðkemur syni sínum og á mjög erfitt með að sleppa af honum hendinni.
Bókin er fersk og nútímaleg með bráðskemmtilegum húmor. Ég hafði mjög gaman af lestrinum og þá þakkaði ég guði fyrir að vera dottin af deit -markaðnum og þessu djammtímabili en hún hristi vel illilega upp í minni mínu þegar ég var sjálf á þessu tímabili.
Lesandinn dettur hreinlega beint í menninguna og upplifir morguninn eftir ógleðina í bland við frábæran vinskap nokkurra vinkvenna. Hressilega skrifuð og skemmtilega flippuð bók!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.