Ekki snúa aftur er eftir Lee Child og fjallar um einfarann Jack Reacher. Hann er svona einfari af gamla skólanum, flakkar um Ameríku og bjargar þeim sem verða á vegi hans.
Hann er eiginlega svona eins og Morgan Kane okkar tíma, ef einhver man eftir honum. Ég elskaði að lesa Morgan Kane þrátt fyrir að ég vissi að þetta væru engar hámenningar bókmenntir og það sama á við um Jack minn Reacher.
Reacher er fyrrum hermaður sem flakkar stefnulaust um heiminn. Hann á ekki neitt og vill ekki eiga neitt. Þegar fötin verða skítug er þeim hent og ný, ódýr keypt í staðinn. Hið fullkomna líf. Hann ferðast um með lest eða strætó, húkkar sér far eða bjargar sér á annan hátt, allt eftir því hversu mikið honum liggur á.
Í þessar bók er hann kominn til Virginíu til að heimsækja herstöð sem hann var eitt sinn í forsvari fyrir en þar er allt í rugli. Konan sem hann ætlaði að hitta er horfin og Jack er munstraður aftur í herinn án þess að hafa nokkuð um það segja og þarf nú að svara fyrir tvö lögreglumál; annað er faðernismál og hitt er morð.
Ekki góðar aðstæður, eða þannig, en okkar maður lætur svona smámuni ekki sig fá og skellir sér í gírinn sem hann er bestur í, að leita réttlætis.
Þetta kemur seint til að flokkast undir afburða bókmenntir en mér finnst þetta skemmtilegt og það er spenna og mikill hraði. Reacher er töffari sem kann að slást og lætur engann eiga neitt inni hjá sér. Það er gott fyrir sálina að gleyma sér smá stund yfir svona töffaraskap.
Ég verð samt að viðurkenna að mér fannst fyrstu bækurnar um hann Jack minn vera betri. Þessi er fín það er ekki það, en það vantar samt eitthvað, ég veit ekki alveg hvað það er. Kannski er Child aðeins farið að leiðast en hver láir honum það eftir 18 bækur? Ég mæli samt alveg með henni fyrir lesendur sem elska að lesa um töffaraskap og slagsmál.
[usr 3,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.