„Ég skal gera þig svo hamingjusaman“ eftir Anne B. Radge er um tíma sem er ekki svo langt frá okkur í tíma í eða 45 ár en hann er alveg órafjarlægð frá okkur í hugsun.
Þarna eru konur með svuntur að skúra og skrúbba allan daginn og vei þeirri konu sem gerir sig seka um að kaupa pakkamat eða eitthvað í dós.
Sagan gerist í blokk og fjallar um átta fjölskyldur, líf þeirra og drauma.
Allar, með einni undantekingu þó, eiga þær sameiginlegt að karlinn er útivinnandi og konan er heima og þrífur. Í einu fjölskyldunni þar sem þetta er ekki svona er um ekkjumann að ræða og „kvennastörfin“ eru honum gjörsamlega framandi og óbærileg. Reyndar svo óbærileg að hann t.d. eldar kartöflur einu sinni í viku og borðar svo kalda afganga það sem eftir er vikunnar. Hann er reiður konunni sinni fyrir að skilja sig eftir í þessum aðstæðum og með stúlkubarn að auki því allir vita jú að stúlkur geta ekki gert það sama og strákar.
Það er ótrúlegt að lesa um þennan heim sem er ekki svo fjarri okkur í tíma en vonandi órafjarlægð í hugsun. Karlarnir vinna úti og koma heim, fá að borða og horfa á sjónvarpið. Í einni fjölskyldunni er heimilsfaðir sem gæti alveg hugsað sér að vinna heima og fá að taka þátt í heimilsverkum, t.d. elda en konunni hans er það algjörlega á móti skapi þó þau bæði viti að hann eldi betri mat en hún. Hvað myndi fólk halda ef hún ynni úti og hann væri heima?
Anne á það til að henda sprengjum í sögurnar sínar. Það gerist eitthvað sem skekur fínu myndina eða um er að ræða atburði sem eru hreint ekki alveg eins og þeir eiga að vera. Þannig laumar hún inn í söguna ofbeldi á börnum og fæðingarþunglyndi. Hún er hinsvegar ekki að fjalla um þessa þætti. Þetta er bara það sem sumir búa við og engum kemur það við þó allir viti af því. En allir geta samt pirrað sig á „pakkinu“ í næsta stigagangi sem ekki er nógu stöndugt félagslega til að eiga sína íbúð.
Anne skrifar bækur sem eru ótrúlega fyndnar á köflum en það er alltaf alvarlegur undirtónn sem skekur lesandann og verður stundum til þess að maður tekur andann á lofti þegar í ljós kemur að fallega bleika myndin af hamingjusömu húsmóðurinni með afþurrkunarklútinn er bara ekkert svo falleg eða bleik. Frekar er þarna dauðþreytt, vansæl kona sem leitar sér huggunar við það sem hægt er, hvort sem það er að fá sér smá sjúss eða tvær til þrjár litlar pillur. Þess á milli að skutlast út í stigagang og skúra á fjórum fótum. Karlarnir eiga sér tómstundaáhugamál sem þeir gera meðfram sjónvarpsglápinu en þær undirbúa kvöldkaffið!
Titill sögunnar „Ég skal gera þig svo hamingjusaman“ segir allt sem segja þar. Starf konunnar er að gera karlinn hamingjusaman og ef það tekst ekki er voðinn vís. Þó er ekki endilega víst að skilgreining hamingjunnar sé sú sama hjá báðum aðilum enda er það ekki rætt. Kannski er það ekki endilega hámark hamingjunnar að konan sé með tuskuna grædda á sig og fötuna í seilingarfjarlægð. Hamingjuleitin er kannski eitthvað sem hægt væri að leita að sameiginlega en felst ekki í þrifum og tiltekt.
Þetta er saga um tíma sem ég persónulega er mjög glöð að vera ekki hluti af en bókin er skemmtileg og persónurnar litríkar.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.