Ég skal gera þig svo hamingjusaman er titill sem við fyrstu sýn mætti ætla að vísaði til sjálfshjálparbókar fyrir konur sem þrá ekkert heitar en að gleðja og geðjast mönnunum sínum.
Kápan er með nett húmorískum blæ þar sem kona með uppsett hár og svuntu bundna um sig miðja er sposk á svip að hella úr tekatli í bolla. Anne B. Ragde skrifaði á sínum tíma metsölbækurnar Berlínaraspirnar, einhvern ljúfasta þríleik sem ég hef lesið. Hver önnur en Ragde gæti skapað rómantíska stemmningu á illa hirtu svínabúi í einangraðri sveit? Já, það er hreinlega bókmenntalegt afrek!
PILLUR PEPPA UPP SÁLARTETUR
Árið er 1965 og svokallaðir Hagkaupssloppar og svuntur eru staðalbúnaður heimavinnandi kvennanna í blokkinni – sem er í raun leikssviðið þar sem líf kvennanna á sér stað. Ekki fara dömurnar mikið út úr blokkinni enda til hvers? Þær eiga einungis einangrað og einfalt líf, sem snýst um að þóknast körlum.
Nokkrar persónur koma við sögu; ein þeirra er hárgreiðslukona sem litar og setur rúllur í nágrannakonurnar í gríð og erg, önnur er illa haldin hreingerningaráráttu og á alveg bágt með sig að þrífa ekki sameignina fyrir hina íbúana í leiðinni og einn blokkarbúinn er þunglynd kona sem þjáist að öllum líkindum af fæðingarþunglyndi. Af þeim sökum finnst henni oft gott að fá sér nokkrar pillur því þá er upplifunin eins og aumt sálatetrið sé vafið inn í miskunnsaman silkislopp. Sem verndar hana gegn átökm lífsins.
KOSTULEGT KYNLÍF Í KYNLAUSRI BLOKK
Kynlífið sem er stundað í blokkinni er kostulegt; svo ekki sé meira sagt, það er einna helst að samfarir eigi sér stað þegar karlmaður freistast til þess að draga nælonsloppinn eða svuntuna upp á mjaðmir spúsu sinnar þegar hún snýr við honum bakinu og sinnir heimilisstörfum. Eitthvað við bograndi konuna virðist kveikja losta í bannsettum blokkarköllunum.
Ragde er ekki í sínu allra besta formi hér en hún hefur samt þennan stíl sem heldur manni að lestri bóka hennar. Ég hefði viljað sjá t.d.uppátækjasaman femínista í persónugalleríinu sem fleygði brjóstahöldunum út af svölum og kveikti í helv …. Hagkaupssloppunum. Stundaði nám af dirfsku hinna hugumstóru og breiddi svo út fagnaðarerindið til kvenfanganna í blokkinni. Já, ekki megum við þó gleyma frúnni á fjórðu hæð sem sögð er þrífa íbúðina sína allsnakinn … en það er bara enn ein ömurleg kynlífsfantasía karla, ekki satt?
Ágætis lesning en nokkuð áreynslulaus um daglegt og bragðlaust líf kvenna árið 1956. Þokkalegasti samfélagsspegill.
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.