Eftirköstin eftir Rhidian Brook er bók um eftirstríðsárin þegar Bretar fóru til Þýskalands að hjálpa til við enduruppbyggingu þýskra borga.
Þarna skapast andrúmsloft hinna sigruðu og sigurveranna. Inn á milli þvælast þeir sem engan eiga að og reyna að bjarga sér eftir bestu getu, það er að segja börnin sem hafa misst allt sitt. Þarna er hatur og ótti og þarna þrífst líka sjálfumglöð sigurvissa þeirra sem hafa unnið stríðið.
Þetta er mjög athyglisverð bók. Maður fylgist með breskri fjölskyldu sem missti ungan son í loftárás Þjóðverja, þýskri fjölskyldu sem verður að láta hús sitt af hendi og barnahópi sem gerir allt til að lifa af. Þetta er mögnuð blanda og ég segi fyrir mitt leyti að það sem fram kemur í þessari bók er alveg nýtt fyrir mér.
Ég hafði ekki áttað mig á því að Bretar, sigurvegarar stríðsins ef svo má segja, hefðu farið til Þýskalands til þess að aðstoða við uppbyggingu borga sem þeir höfðu hjálpað til að við að eyðileggja.
Að þeir hefðu skipað fólki að yfirgefa hús sín, þau sem enn voru heil, til að koma sínu fólki fyrir. Hvert átti það fólk að fara?
Stríðið búið, allt í rúst og þau urðu síðan að yfirgefa heimili sín til að fjölskyldur sigurvegaranna gætu komið yfir hafið. Þetta er ótrúleg hugmynd og byggir á heimildum en afi höfundar var í þessari stöðu, hann flutti með fjölskyldu sína til Hamborgar og bjó þar í hernumdu húsi.
Þarna er ákveðin togstreita í gangi, það eru ekki allir fullir af sigurvissu og þar eru heldur ekki allir fullir auðmýktar þó þeir verði að láta líta svo út. Barn sem verður að horfa upp á að annað barn fær öll leikföngin úr þeirra eigu og það verður að standa hjá.
Þetta fær mann til að hugsa um hvernig maður sjálfur myndi bregðast við og ég er ekki endilega viss um að útkoman yrði eins og maður vildi helst því það er erfitt að sjá fyrir hvernig manneskja kemur til með að bregðast við.
Þetta er mjög myndræn saga.
Ég sá fyrir mér sögusviðið, hin gjöreyðilagða borg. Börn að skjótast um í rústunum að leita sér að einhverju ætilegu og sigurvegararnir í stórum bílum með bílstjóra keyrandi í búðir fullar af vörum sem bara þeir höfðu aðgang að. Það sorglega er hins vegar að þetta gæti örugglega gerst aftur í dag á nákvæmlega sama hátt því við virðumst seint læra af reynslunni.
Ég hvet alla til að lesa þessa bók því hún er mjög vel skrifuð og hún snertir við manni. Ég veigra mér við að segja að hún sé skemmtileg því efnið er þannig að það er eiginlega ekki hægt að segja skemmtilegt nema vera álitinn eitthvað furðulegur. En góð er hún og fallega myndræn.
Ég gef henni fjórar stjörnur
[usr 4.0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.