Gerður Kristný hefur sent frá sér nýja barnabók sem heitir Dúkka. Þetta er hryllingssaga fyrir lesendur frá átta ára aldri.
Kristín Katla er 10 ára og hún ætlar að kaupa sér dúkku fyrir afmælispeninginn en þetta er dúkka sem allar stelpurnar í bekknum vilja eignast.
Málið er að velja dúkku sem líkist manni sjálfum. En dúkkan er ekki öll þar sem hún er séð – er hún eins góð og blíð eins og hún lítur út fyrir að vera eða er eitthvað annað í gangi?
Mér finnst þetta frábær bók, vel skrifaður texti og flottar myndir. Sagan heldur sér í gegnum alla bókina sem er mátulega löng fyrir unga lesendur eða rétt um 100 blaðsíður. Þar sem ég er ekki alveg í lesendahópnum sem bókin er stíluð fyrir þá fékk ég níu ára dóttur mína til að lesa hana líka. Hún las hana á tveimur kvöldum og ég mátti ekki trufla hana á meðan. Hér kemur hennar dómur:
Natalía 9 ára:
Þetta er frábær bók og það besta við hana er að hún byrjar strax. Það er ekki löng kynning og maður bíður og bíður eftir að sagan byrji. Nei, þessi er með smá kynningu og svo bara byrjar hún. Ótrúlega spennandi, svona blanda af Annabel og Furby (dúkkan Annabel sem barnið hefur auðvitað ekki fengið að horfa á og Furby sem var óska leikfangabangsinn í fyrra en margir hafa sett upp í skáp batteríslausan því hann umturnaðist ef hann fékk ekki góða umhirðu frá eigandanum).
Myndirnar í bókinni eru rosalega flottar og sýna nákvæmlega hvað er að gerast, mjög „krípí“. Aumingja Nói (hamsturinn), ég vorkenndi honum mikið.
Svo mörg voru þau orð. Við erum síðan búnar að ræða söguþráðinn þaula og ákveða að við ætlum að fylgjast með öllu sem Gerður Kristný gefur fá sér í framtíðinni. Bókin er komin í skólatöskuna og á að segja frá henni í skólanum þannig að bekkjafélagarnir missi ekki af þessari frábæru bók.
Og stjörnugjöfin? „Mamma má gefa fimm stjörnur?“ . Þannig að við mæðgur gefum henni fullt hús án þess að hika.
[usr 5,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.