Dísu saga – Konan með gulu töskuna eftir Vigdísi Grímsdóttur er hreinlega alveg frábær að mínu mati.
Ég er búin að flissa, finna til með henni og hvetja hana áfram í huganum. Mér finnst ég nefnilega alltaf eiga pínupons í Vigdísi sjálfri. Hún hefur að mínu mati alltaf verið svona töffari og þessi bók styður það álit mitt.
Dísusaga fjallar um líf Dísu Gríms sem er önnur persóna Vigdísar Grímsdóttur, hin persónan er Gríms sjálf. Gríms stökk alsköpuð fram er höfundur verður fyrir nauðgun þá einungis 10 ára gömul. Dísa Gríms glaða og káta stúlkan kunni enga aðra leið til að lifa þann atburð af en fá Gríms svörtu sér til hjálpar. Illu heillu er það síðan Gríms sem verður ráðandi í þeirra sambandi því þegar hún er komin þá er engin leið að reka hana í burtu.
Bókin er skrifuð í bréfaformi þar sem persónurnar tvær bítast um að fá að skrifa en Dísa hefur fengið leyfi hjá Gríms til að skrifa þessa sögu en hingað til hefur það verið Gríms sjálf sem hefur skrifað. Bréfin eru skrifuð til Kisa sem er elskhuginn sem þær sjá mest eftir. Inn í söguna fléttast svo persónur og sögur frá Trékyllisvík en þar eru þær stöllur staðsettar til að skrifa bókina. Hin svarta Gríms í felum og hin litaglaða Dísa Gríms sem elskar gult mest af öllum litum sú sem kemur opinberlega fram.
Það tekur smá tíma að ná tökum á frásagnarhefðinni en þegar það er komið á hreint er hreinlega unun að lesa þessa bók. Bæði Gríms og Dísa Gríms eru skemmtilegar í karpi sínu um það hvor eigi að ráða og mismunandi sýn þeirra á elskhugann Kisa er hreinlega frábær. Aukapersónurnar eru skemmtilegar og litríkar og Kisi blessaður er ótrúlega flókinn sem kannski er ekki skrítið þar sem tvær ólíkar konur eru að horfa á hann með sitt hvorum gleraugunum. Mér finnst þetta mjög persónuleg saga og ég dáist að Vigdísi að deila þessum persónulegu minningabrotum, sem sum hver eru mjög erfið, með okkur.
Það er eiginlega verst að vera búin með þessa bók því þá er ekki lengur hægt að láta sér hlakka til að lesa hana.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.