Ný bók eftir Kristina Ohlsson er alltaf tilhlökkunarefni á mínum bæ. Davíðsstjörnur er nýjasta nýtt frá henni og ég varð ekki fyrir vonbrigðum.
Síðasta bókin hennar var Paradísarfórn. Ég varð fyrir smá vonbrigðum með hana og því byrjaði ég á þessari með þeirri hugsun að kannski væri hún búin að missa það og ég yrði bara að sætta mig við það. En ó nei, Kristina er sko ekki neitt búin að missa og sýnir í þessari sögu hvernig spennusögur eiga að vera.
Pappírsstrákur rænir börnum
Söguþráðurinn er í stuttu máli sá að ísraelsk þjóðsaga segir frá Pappírsstrák sem rænir börnum að næturlagi og myrðir þau. Sagan fer af stað aftur þegar kennari við ísraelska skólann í Stokkhólmi er drepinn af leyniskyttu og sama dag hverfa tveir ísraelskir drengir sem eru nemendur í þessum sama skóla.
Fredrika Bergman og Alex Recht leita morðingjans og Eden Lundell hin dularfulla sem kom fram í síðustu bók, blandast líka inn í rannsóknina.
Síðan er hliðarsaga, kona sem kemur heim að myrtri fjölskyldu sinni og ég varð ótrúlega fúl út í Ohlsson fyrir að gera þetta en það má ekki segja meira því þá er spennan horfin.
Fólkið í þessum bókum er mátulega manneskjulegt og er að kjást við hversdagsleg vandamál í bland við hryllileg morð.
Það verður að játast að morð á börnum eru alltaf einhvern veginn verri heldur en þegar fullorðið fólk er myrt. Það er einhvern veginn svo óhuggulegt og maður getur ekki annað en hugsað hvort manns eiginn ungi sé ekki örugglega óhultur í rúminu sínu.
Hversu hryllilegt verður þetta?
Mér líkar vel frásagnarmátinn í þessari bók. Það er flakkað á milli persóna og sögurnar skarast en hvenær veit maður ekki og enn síður veit maður hversu hryllilegt þetta verður eða kannski bara sleppur það til?
Þetta er sem sagt fín spennusaga sem heldur sínu alveg og ég get alveg haldið áfram að hlakka til bóka eftir Kristina Ohlsson, hún er sko ekkert búin að missa það. Ég gef henni fjórar og hálfa stjörnu.
[usr 4,5]
Fyrir lengra komna er hér viðtal við rithöfundinn sjálfan á sænsku 🙂
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=Q_-ZuCNW6Xk[/youtube]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.