Dansað við björninn er eftir Roslund & Thunberg og það var ákveðin tilhlökkun í mér þegar ég hóf lesturinn. Roslund er nefnilega einn af mínum uppáhalds skandinavísku höfundum og ný bók eftir hann er tilefni eftirvæntingar, hélt ég.
Þessi saga er byggð á atburðum sem gerðust í raun og veru: Þrír bræður og vinur þeirra, fremja hin fullkomnu bankarán í Svíþjóð. Enginn veit hverjir þetta eru og þeir verða sífellt stórtækari. Inn í söguna fléttast ofbeldisfullur faðir og undirgefin móðir, lögreglumaður sem getur ekki tengst neinum en virðist eiga svipaðan bakgrunn og bræðurnir, – og undirgefin kærasta. Þetta er hið fullkomna plott og ætti ekki að geta klikkað. Eða hvað?
Hvað mig varðaði þá klikkaði þetta all illilega. Mér fannst sagan alltof löng, svona um það bil 350 blaðsíðum of löng. Hún hefði alveg þolað að klipptar væru burt svo margar síður og hefði samt verið löng. Mér fannst allt of mikill tími fara í lýsingar á undirbúningi hvers ráns, reyndar svo mikill að ég gæti nokkurn veginn treyst mér til að skipuleggja eitt slíkt eftir þessum lýsingum.
Ég hefði viljað sjá betri persónusköpun bræðranna og ég hafði miklu meiri áhuga á fortíð þeirra heldur en þeim atburðum sem sagan fjallar um. Undir það síðasta las ég bara til að klára söguna, það var engin spenna og ég hugsaði stöðugt, drífið þetta af strákar, þetta er alveg komið gott.
Ég get ekki einu sinni sagt að mér hafi þótt bókin skemmtileg, til þess var hún allt of löng. Ég ætla að gefa henni tvær og hálfa stjörnu, ég get ekki meira.
[usr 2,5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.