Sýnishorn af bíómyndum fanga oft athygli mína og í kjölfarið les ég oft bækurnar sem myndirnar eru byggðar á, sérstaklega þegar nokkuð er í útgáfu á myndinni og mér þykir söguþráðurinn athyglisverður.
Bíómyndaleiðarinn fyrir bókina Cloud Atlas eftir David Mitchell er einn af þeim en hann er að mínu mati vægast sagt stórkostlegur og fangaði hann athygli mína um leið og ég sá hann. Ég meira segja horfði á hann nokkrum sinnum til að átta mig á hversu stórfengileg þessi mynd myndi verða.
Bókina fann ég ekki á íslensku, þannig að ég keypti hana á Amazon en þar fær hún góða dóma og var það ekki spurning um að kaupa hana á augabragði og byrja að lesa.
Þegar horft er á leiðarann fyrir myndina kemur fram að bókin er uppsett í nokkrar sögur þar sem þær tengjast á ákveðinn hátt, en gefið er til kynna að örlög okkar séu löngu ákveðin og að líf okkar tengjast hring eftir hring og getur það útskýrt afhverju við löðumst að ákveðnu fólki, áhugamálum og hvernig stígar okkar krossast á lífsleiðinni. Ég varð mjög spennt að lesa bókina.
Sagan hefst 1930 en skiptist upp í nokkrar sögur þar sem við förum nær nútímanum í hverri sögu og í miðri bók erum við í framtíðarheimi þar sem heimurinn er allt öðruvísi en við þekkjum í dag og fer sagan svo að rekja sig til baka aftur þar sem við endum aftur í fyrstu sögu, en í hverri sögu er tenging í hvor aðra þannig að heildamynd verður þegar bókinni er lokið.
Ég heillaðist af mörgum sögum í bókinni, fyrsta sagan fannst mér reyndar erfið, hún var skrifuð á gamalli ensku en nokkrar af sögunum vöktu mikla kátínu hjá mér, ég hló, var spennt, sorgmædd, þyrsti í að vita meira, meðan sumar heilluðu mig ekki en væntanlega hefur enskukunnátta mín og frásagnastíllinn eitthvað um það að segja þar sem sögurnar eru ólíkar og í raun sjálfstæðar þó svo að þær tengist saman.
Ég heillaðist af bókinni, (maðurinn minn ekki). Þetta er svona bók sem manni þykir gaman að eða ekki, heillast af eða ekki, fellur fyrir eða ekki. Hér er leiðarinn að myndinni, langur en mjög heillandi…
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=hWnAqFyaQ5s[/youtube]
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.