Britt-Marie var hér er ný bók eftir sænska höfundinn Fredrik Backman sem einnig skrifaði Maður sem heitir Ove. Þessar tvær bækur eru um margt líkar. Fjalla um einmana eldri persónur sem ganga ekki endilega alveg sömu braut og við hin, en vilja vel.
Britt-Marie er stödd í vinnumiðluninni í upphafi sögunnar. Hún hefur verið heimavinnandi í 40 ár og það er hreint ekki auðvelt að finna vinnu fyrir konu á þeim stað í lífinu. En ef það er eitthvað sem Britt-Marie hefur nóg af þá er það seigla og hún tekur ekki nei fyrir svari. Ekki ef hún hefur ákveðið að svarið sé já.
Þetta er mjög fyrirsjáanleg saga og maður veit alveg hvert hún stefnir en mér fannst hún skemmtileg og ég fann til með Britt-Marie sem hafði látið ýmislegt yfir sig ganga í hjónabandi með manni sem elskaði hana ekki alveg nóg.
Kannski hefði lífið orðið öðru vísi ef hlutirnir hefðu æxlast á annan veg. Systirin sem hún elskaði og foreldrarnir sem gleymdu henni. Maðurinn sem vildi aðra konu en lét sér nægja hana sem var tilbúin að fórna sér fyrir aðra. Lífið getur verið svo furðulegt en stundum fær fólk annað tækifæri og þá er spurningin hvort maður er tilbúinn að grípa það eða lætur það fram hjá sér fara.
Fyrir þá sem lásu um karlinn hann Ove þá er þetta mjög svipuð saga nema skrifuð um konu. Það er svo sem ekkert sem kemur á óvart en stundum er það bara þægilegt. Þetta er dálítið eins og að fara í þægilegu rennibrautina í sundi, þú veist hvernig ferðin verður en hún er samt skemmtileg.
Ég var ánægð með endinn og tautaði alveg ein með sjálfri mér: „Já Britt svona á að gera það!“ – Fjórar feitar stjörnur til Britt frá mér.
[usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.