Jón Atli Jónasson er þekktur fyrir bækurnar Brim, Djúpið og Þú ert hér en Börnin í Dimmuvík er hans nýjasta verk
Gömul kona heldur út á land í jarðaför bróður síns. Þegar hún situr í gömlu kirkjunni þar sem hún bjó áður rifjast upp fyrir henni atburðir sem áttu sér stað í Dimmuvík þegar hún var barn.
“Af og til gáfu ærnar frá sér skerandi jarm svo að ég þorði ekki annað en að fara frá glugganum eftir dálitla stund til að gæta þess að Hugrún litla kæmi ekki fram og yrði vitni að slátruninni. Þegar ég kom inn í minna herbergið lágu Hugrún og Tómas sofandi í rúminu. Ég læddist því aftur út úr húsinu og að gryfjunni og gálganum. Pabbi var alblóðugur og féð lá í dauðakippum í iðandi kös í gryfjunni.”
Blaðsíða 36-37 Börnin í Dimmuvík
Börnin í Dimmuvík er lítil og nett kilja. Segir frá afar sorglegu og nöturlegu lífi þriggja barna í Dimmuvík. Þau þjáðust í fátækt og vosbúð. Kulda bæði hinum venjulega kulda sem og tilfinningalegum kulda frá foreldrum sínum.
Bókin hafði mikil tilfinningaleg áhrif á mig. Svo mikil að ég fékk kökk í hálsinn við lesturinn, svo áhrifaríkur var hann. Bókin er feiknarvel skrifuð og orðin hreinlega dansa fyrir framan lesandann á meðan hann les. En það er nöturlegur lestur því sagar er sorgleg.
Þvílíkt líf… þvílíkt líf, það er í raun það eina sem ég get sagt. Bókin fær 5 stjörnur frá mér. Frábærlega skrifuð, algjört listaverk!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.