Bonita Avenue er eftir hollenska rithöfundinn Peter Buwalda.Þetta er heilmikil saga fjölskyldu í Hollandi. Fjölskyldufaðirinn Siem Sigerius er rektor í háskóla og hann er jafnframt mikil júdókempa.
Kona hans er listakona og hún á tvær dætur sem Siem lítur á sem sínar eigin. Hann á líka einn son en hann er í fangelsi fyrir morð. Tengdasonur Siem, Aaron, er ljósmyndari og hann dýrkar tengdaföður sinn, jafnvel meira en hann elskar dótturina.
Siem heldur framhjá konu sinni með nemanda í háskólanum og þegar hún segir honum upp leitar hann huggunar við að skoða klámmyndir á netinu. Hann fær áfall þegar ein síðan er með myndum af Joni dóttur hans, myndir sem greinilega eru teknar af færum ljósmyndara. Sagan flakkar síðan á milli Siem, Aaron og Joni og er alveg ótrúleg á köflum.
Aaron er sá sem kemur verst út í þessum samanburði en hann nær samt engri samúð hjá lesandanum, til þess er hann alltof sjálfmiðaður og skrítinn. Siem hinn fullkomni sem allt getur á einhvern veginn auðveldara með að ná til lesandans.
Undirtónarnir í sögunni eru dökkir. Skilnaður, barn sem enginn vildi, fyrri eiginkona sem drekkur sig í hel, stjúpdæturnar sem hafa ekkert samband við föður sinn, Aaron tengdasonurinn með geðklofann, eiginkonan með átvandamálið og viðhaldið sem ræðir ástarmál sín við móður sína.
Vandamálin hrannast upp en þau eru samt á engan hátt of mikið fyrir söguna. Þetta flæðir áfram stigi af stigi þar til á hátindinum að allt fellur eins og það getur fallið.
Þetta er ótrúlega mikil bók. Alls ekki léttmeti en samt skemmtileg og höfundi tókst að viðhalda forvitninni hjá mér þannig að ég varð að halda áfram til þess að sjá hvað í ósköpunum myndi gerast næst.
Þetta er fyrsta bók höfundar og það verður spennandi að sjá hvað hann kemur með næst. Fjórar stjörnur!
[usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.