Sem barn hafði ég geysilega gaman af Þjóðsögum Jóns-Árnasonar. Ég var mikill bókaormur og sögur þessar voru endalaus uppspretta furðuheima og æsandi spennusagna um drauga, álfa og allskonar forynjur.
Ein eftirlætis sagan mín var af henni Bjarna-Dísu en sú var ógurlegur draugur sem herjaði á heilu ættirnar og lét öllum illum látum áratugum saman. Dísa hafði verið stelpa sem varð úti í vonsuveðri og fannst uppi á heiði, rétt við það að gerast afturganga. Þá var hún “brotin á bak aftur” svo hægt væri að koma í veg fyrir að hún gengi alveg aftur en það fór ekki betur en svo að hún lagði, eins og fyrr segir, heilu ættirnar í einelti.
Sem aðdáandi þjóðsagnann fannst mér sérstaklega gaman að fá í hendurnar bók sem sagði sögu Þórdísar Þorsteinsdóttur, eða Bjarna-Dísu, meðan hún lifði og frá hennar hinstu ferð.
Kristín Steinsdóttir rithöfundur hefur frábært ímyndunarafl en á meðan ég las bókina fannst mér ég vera komin rúmlega 200 ár aftur í tímann á þessu kalda landi sem við búum á. Lýsingar á aðstæðum fólksins, upplifunum og valkostum í tilverunni eru virkilega góðar og sannfærandi og ekki er laust við að hrollurinn sé ekki minni bara við það að setja sig í spor þessara vesalinga. Á sama tíma furðar maður sig á því hvað við vorum í raun lengi í þessum sporum og hvað það er í sjálfu sér stutt síðan að bæði landið og menningin fór svo illa með fólk.
Bókin um Bjarna-Dísu er enginn doðrantur. Hún telur 158 blaðsíður sem eru auðveldlega lesnar enda Kristín mjög fær og vanur höfundur sem kann að halda lesendum sínum vel við efnið.
Bókakápan finnst mér jafnframt einstaklega falleg en hana hannar kona að nafni Alexandra Buhl. Hún sýnir sögusviðið á gömlu landakorti og aftan á er mynd af textabroti úr Ministerialbók Dvergasteins þar sem skrifað er um dauða Þórdísar Þorgeirsdóttur. Þetta færir þá staðreynd að þessi stelpa var raunverulega til enn nær manni og hugsanirnar um þessa dimmu og hjátrúarfullu tilveru á Íslandi fyrir rúmum 200 árum verða enn skýrari.
Frábær bók!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.