Biðlund er eftir Noru Roberts en hún skrifar ástarsögur með spennuívafi og þessi bók er akkúrat þannig: Smá misskilningur, ást, þrá, hatur, tveir menn og ein kona.
Er til betri blanda? Jú, bætum í eins og einum draugi og skemmtilegum vinum.
Kvenhetjan er Clare, ung ekkja með þrjá syni og bókabúð sem hún rekur. Karlhetjan er Beckett sem er einn þriggja bræðra sem í sameiningu eru að gera upp gamalt hús í þeim tilgangi að gera þar flott gistihús.
Það er nú ekki hægt að segja mikið meira um söguþráðinn því hann er ekki mjög flókinn ef satt skal segja. En sagan gengur alveg upp því þetta er jú ástarsaga og þær eru kannski ekki mjög flóknar. Ekki þannig.
Nora Roberts er Barbara Cartland okkar tíma.
Hún skrifar ástar-spennusögur undir fleiri en einu nafni og allt í allt hefur hún gefið út meira en 200 skáldsögur. Jahá segi ég og skrifa. 200 sögur?! Það er nú vel í lagt. En ef maður er að leita að ástarsögu með ekki of flóknum söguþræði, bara eitthvað til að gleyma sér smástund, þá eru þessar bækur hennar Noru alveg tilvaldar í það.
[usr 3,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.