Barn 44 er eftir breska rithöfundinn Tom Rob Smith og er hans fyrsta bók. Þetta er fyrsti hlutinn af þríleik þar sem söguhetjan Leo er lögreglumaður í Rússlandi eftir seinni heimsstyrjöldina.
Stalín ræður ríkjum og fólk lifir í stanslausum ótta um að vera rifið burtu frá fjölskyldum sínum fyrir glæpi sem það hefur ekki framið enda eru engir glæpir á þessum tíma. Lögreglan hendir fólki í fangelsi og fólk játar hvað sem er undir pyntingum lækna og fangavarða. Fólk sem kemst áfram getur veitt fjölskyldu sinni betra líf, t.d. að versla matvöru í betri verslunum meðan annað fólk sveltur og gerir hvað sem er til að komast af. Hvað sem er, – svo lengi sem það kemst ekki upp.
Af hreinni tilviljun rekst Leo á morð sem hann grunar að sé af völdum raðmorðingja en yfirmenn hans vilja ekki vita af því og segja það ekki hafa gerst. Hvernig finnur maður samherja í landi þar sem hræðslan ræður ríkjum og það að hjálpa samborgara þínum getur orðið til þess að öll þín fjölskylda verður drepin?
Þetta er alveg sláandi bók og ótrúlega erfitt að lesa hvernig fólk deyr úr hungri eða kemst lífs af með því að jafnvel leggja sér annað fólk til munns. Hvernig hræðsla litar öll samskipti og fólk snýr sér undan til þess að þurfa ekki að hjálpa enda getur það orðið til þess að viðkomandi verður sakfelldur fyrir verknað sem hann ekki framdi.
Hins vegar erum við kannski ekki svo langt frá þessu í dag. Í stórborgum Ameríku t.d. veigrar fólk sér við að hjálpa náunganum af ótta við að viðkomandi krefjist hinminhárra tryggingarbóta. Það er eiginlega hin hliðin af því sama.
Þó þetta sé erfitt aflestrar er einnig sláandi að lesa lýsingar á þessum tíma. Hvernig Stalín hélt fólki í heljargreipum og reyndi að afmá öll persónueinkenni fólks. Auðvitað er það einföldun hjá mér að segja að hann hafi gert það en fólk varð að passa sig á því að skera sig ekki úr fjöldanum. Ef það barst of mikið á, keypti áberandi fatnað eða annað þá gat komið að því að nágrannar létu yfirvöld vita að þarna væri eitthvað tortryggilegt á seiði.
Mér fannst þetta fín bók, kannski ekki rétt að segja að hún sé skemmtileg, því það er ekki beint skemmtilegt að lesa um fólk sem króknar úr kulda og leggur sér ketti og ung börn til munns. Þetta er hins vegar fyrsta bókin af þremur um Leo og rannsóknir hans og það verður skemmtilegt að lesa meira um hann. Þessi bók hefur hlotið fjöldann allan af virtum verðlaunum og það verður gaman að fylgjast með þessum höfundi áfram.
Aðeins að vandræðast með stjörnugjöfina því sem spennubók finnst mér hún ekki vera nema kannski þrjár og hálf stjarna en sagan sjálf og umhverfið finnst mér vega meira og ákvað því að skella á hana fjórum stjörnum.
[usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.