Ár hérans eftir finnska höfundinn Arto Paasilinna kom út 1975 en var nýlega endurútgefin á íslensku. Þetta er pínulítil og krúttleg bók sem alveg er hægt að skemmta sér yfir.
Blaðamaðurinn Vatanen er hundleiður á lífi sínu og þolir ekki snobbaða eiginkonu sína. Þegar hann er í vinnuferð og keyrir óvart yfir héraunga hefst ófyrirséð atburðarás.
Vatanen fer á eftir héranum inn í skóginn og bjargar honum en þegar hann kemur til baka upp á veginn er félagi hans horfinn, hann nennir ekki að bíða eftir þessari vitleysu. Í framhaldi af því, tekur Vatanen þá ákvörðun að snúa ekki til baka til fyrra lífs. Hann flakkar um Finnland með hérann sinn, vinnur fyrir sér með smíðum og skógarhöggi og kynnist fólki og búfénaði. Í stuttu máli sagt þá finnur hann hamingjuna á ný.
Húmor og glettni í ófyndnum aðstæðum
Mér fannst þetta þræl skemmtileg saga. Hún minnti mig örlítið a Góða dátann Sveijk, það var eitthvað í frásagnarstílnum og hvernig höfundur sér húmor og glettni út úr aðstæðum sem kannski eru ekki beint spaugilegar.
Eins og gamli róninn sem týndi tönnunum og ákvað þá að hann yrði að læra synda svo hann finndi tennurnar sínar aftur. Í stað tanna finnur hann eitthvað allt annað og stendur upp sem sigurvegari, alla vega í smá stund.
Þetta er lítil bók og auðlesin, skrifuð á þeim tíma þegar bækur þurftu ekki að vera 600 blaðsíður eða meira til að slá í gegn.
Ég er aðdáandi langra bóka en mikið svakalega er nú samt gott að lesa annað slagið eina sem er bara rétt um 200 blaðsíður. Ég gef henni fjórar stjörnur
[usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.