„Amma biður að heilsa“ eftir Fredrik Backman er bók sem ég hef hlakkað til að lesa. Ég las bókina hans um karlfauskinn hann Ove og hreinlega elskaði hana. Þess vegna varð ég fyrir gífurlegum vonbrigðum með þessa.
Hún er vel skrifuð og með frábærum persónum það vantar ekki, en ég náði bara ekki nokkurri tengingu við aðalsöguhetjurnar. Krakkinn er sjö ára og er afburða klár en það að hún er bara sjö ára truflar mig. Ef hún hefði verið 10 ára þá hefði mér eflaust þótt þetta sennilegra.
Í upphafi sögunnar kemur amman fram sem kona með miklar geðrænar truflanir. Þetta á að vera fyndið en mér fannst þetta bara alls ekki fyndið. Það skánar þegar maður les meira og maður áttar sig á því að hún er ekki svo slæm eftir allt saman og allt á sér skýringar. Ég verð samt að segja að ég er mjög fegin að ég las „Maður sem heitir Ove“ fyrst því ég hefði aldrei nennt að lesa hann ef þetta hefði verið fyrsta bókin eftir þennan höfund.
Ég er búin að lesa gagnrýni og umsagnir frá öðrum og það hæla henni allir í hástert. Fólk hlær og grætur og allt þar á milli. Ég hins vegar hraðlas sumar síðurnar því þær náðu mér bara alls ekki. Ég er mikill unnandi ævintýrabóka sem gerast á öðrum tímum en okkar en þetta var bara eiginlega einum of mikið af því góða fyrir mig.
Þannig að ég ætla að stoppa hér áður en ég skemmi fyrir einhverjum öðrum með mega tuði. Ætla samt að gefa henni þrjár stjörnur því hún er vel skrifuð og persónurnar skemmtilegar.
[usr 3,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.