Alla mína stelpuspilatíð er einhverskonar þroskasaga með sagnfræðilegum pælingum. Þetta er saga Sigríðar Kristínar Þorgrímsdóttur en móðir hennar var Jakobína Sigurðardóttir skáldkona.
Þetta er ekki eiginleg ævisaga en þetta er heldur ekki skáldverk. Sigríður fjallar þarna um ýmis æviskeið sín frá bernsku til dagsins í dag og kemur misvel inn á þau. Inn í þetta fléttast saga móður hennar og ömmu og kvenna almennt.
Sigríður er sagnfræðingur og skrifar söguna út frá kvennasögu og með ákveðnum kynjagleraugum því hún er að skrifa um hvernig staða konunnar er í íslensku samfélagi á hinum ýmsu tímum sögunnar og notar til þess sögu sinna formæðra. Þetta er skemmtileg nálgun og mér fannst athyglisvert þegar hún var að bera saman hina ólíku tíma og hvernig hlutverk konunnar hefur breyst gegnum tíðina. Frá því að bera nær alfarið ábyrgð á öllu sem gerist innanhúss í það að vera útivinnandi til jafns á við karlmenn og mega hafa skoðanir sem ekki eru allra.
Á tímum móður hennar sem var þekktur rithöfundur á Íslandi og fékk m.a. verðlaun fyrir skrif sín, var það á hreinu að heimilið og störfin á því komu fyrst, síðan ef færi gafst, þá gat hún sest við skriftir. Hún ber þetta aðeins saman við nóbelsskáldið sem eflaust hefur ekki þurft að klára að gefa öllum að borða og vaska upp áður en hann gat sest við skriftir sínar. Skemmtilegar pælingar og gaman að lesa hvernig hlutirnir hafa breyst því á vissum stundum finnst manni sem ekkert hafi breyst.
Það er líka gaman að lesa sögu Sigríðar sjálfrar frá því að vera feimni stelpugopinn í eineltinu í sveitinni upp í að vera sterk og flott kona með sína háskólagráðu. Nafn bókarinnar finnst mér líka vera flott, þó það kannski minni sögumann á tíma sem voru erfiðir en orðið kemur frá afa hennar sem glímdi við mikil andleg veikindi.
Þetta er fín saga og vel skrifuð með fullt af skemmtilegum pælingum um stöðu kvenna fyrr og nú og kápan finnst mér alveg sérlega flott.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.