Alex eftir franska höfundinn Pierre Lemaitre er bók sem kom mér verulega á óvart.
Hún fjallar um Alex sem er rænt og haldið fanginni í yfirgefnu vöruhúsi. Eitt vitni er af ráninu en enginn virðist sakna hennar og lögreglan er því kappi við tímann í rannsókn á glæp sem ekki er öruggt að hafi verið framinn.
Þetta er frönsk spennusaga eftir höfund sem er mjög vinsæll í heimalandi sínu og hefur verið að vinna alþjóðleg verðlaun undanfarin ár.
Mér fannst dálítið erfitt að komast inn í það hvernig hún er skrifuð því hún er allt öðru vísi en skandinavísku krimmarnir sem ég hef mest verið að lesa að undanförnu. En þetta er ótrúlega spennandi saga, sambland að einhvers konar súrrealískri hryllingssögu og spennusögu sem ekki er hægt að leggja frá sér.
Einhvern veginn finnst mér rottur alltaf svo skelfilegar að ef þeim er blandað í söguþráðinn þá er komin hryllingur sem stendur alveg sjálfur, burtséð frá sjálfri sögunni. Rotturnar duga einar og sér.
Ofsa spennandi ringulreið og ruglingur – Hvað er það?
Alex er mjög myndarleg kona en hún virðist samt villa á sér heimildir og eftir því sem líður á söguna verður lesandinn ruglaðri og ruglaðri en um leið ofsa spenntur. Lögreglugengið er svo furðulegt að annað hvort eru þeir súper góðir eða svo afspyrnu lélegir að það nær engri átt.
Sagan beygist og sveigist í allar áttir, virðist stefna í eina átt en snarbeygir allt í einu og kemur þvert á það sem hún stefndi í byrjun. Í lokin er öllu raðað svo snyrtilega að það liggur við að maður standi upp og klappi og það er óhjákvæmilegt að líta yfir bókina og skoða hana aftur þegar síðasti kaflinn er búinn.
Ég er ótrúlega ánægð með þessa bók. Sérstaklega miðað við það að ég var alls ekki viss í byrjun að þessi saga væri neitt fyrir mig. Fannst óþægilegt hvernig hún er skrifuð í nútíð en eftir á að hyggja held ég að það sé vegna þess hvað það er óvanalegt.
Ég ætla að snara á hana fimm stjörnum því sem spennusaga hélt hún mér alveg og sem hryllingssaga kom hún óþægilega á óvart því ég átti ekki von á þeim hluta.
[usr 5,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.