Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi. Aldrei í mínum villtustu draumum hefði ég getað ímyndað mér að ég ætti eftir að lesa þessa bók og hreinlega elska hana.
Málið er að þegar ég, á mínum yngri árum, var að lesa ástarsögur af miklum móð þá var Guðrún frá Lundi ekki í tísku. Og það var ekki bara að hún væri ekki í tísku, hún var hreinlega það hallærislegasta af öllu hallærislegu. Það voru bara „kellingar“ sem lásu bækur hennar. Af því leiddi að hana vantar algjörlega í minn bókmenntabakgrunn ef svo má að orði komast.
Núna var ég neydd til að lesa Afdalabarn þar sem ég er í bókaklúbbi og þar les maður það sem á að lesa hverju sinni og nú er bók mánaðarins, Afdalabarnið hennar Guðrúnar. Nú verð ég að éta ofan í mig stórorðar æskuyfirlýsingar mínar um Guðrúnu frá Lundi.
Þessi bók er hreinlega gullmoli, eða kannski frekar konfektmoli því margar setningarnar eru þannig að ég marg las þær og smjattaði á þeim til að treina þær sem lengst, rétt eins og maður gerir við eitthvað gott í munninn.
Persónusköpunin er yndisleg. Grimmlyndi móðurinnar er sannarlega mikið og stjórnast af lægri hvötum sem enginn vill viðurkenna að búa yfir, eða stéttagræðgi og snobbi. Sonurinn er góðmenni og ekki mikið fyrir að taka slaginn nema algjörlega hann neyðist til. Hann stendur þó á sínu þegar hann áttar sig á gangi mála. Afinn og amman eru eins og afi og amma eiga að vera, elska barnabarnið sitt út af lífinu og óttast hvað um hann verði þegar þau eru ekki lengur til staðar.
Aukapersónur eins og ömmusystirin sem hefur gaman að slúðri og rýkur milli bæja með hnykilinn undir handleggnum og prjónar á göngunni. Yndislegt að fá hana í heimsókn en enn betra þegar hún fer aftur. Hver kannast ekki við svona?
Hallgrímur Helgason skrifar eftirmála sem ég las af engu minni áhuga en bókina sjálfa og stóð mig að því að glotta út í annað að athugasemdum hans því þetta voru allt atriði sem ég hafði rekist á í bókinni. Ég er líka sammála honum með að það er spurning af hverju Guðrún hefur ekki fengið að njóta sannmælis sem rithöfundur. Mjög líklega er það af því hún er að skrifa um hið hversdagslega, lífið eins og það er á hennar tímum. Þetta er saga úr hverdagslífinu.
Ég mæli með þessari yndislegu bók sem fjallar um liðna tíma og atburði sem gerast ekki lengur. Þegar menn fóru gangandi eða á hestum á milli bæja. Bæirnir sjálfir að hluta til eða öllu leyti úr torfi og grjóti og fólkið klætt fötum sem það bjó sjálft til.
Ég ætla að gefa henni fimm stjörnur og éta ofan í mig allt sem ég hef áður sagt um rithöfundinn Guðrúnu frá Lundi.
[usr 5,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.