Afbrigði eftir Veronica Roth er unglingasaga sem allir geta lesið. Þessi bók er búin að vera á öllum helstu vinsældalistum heimsins og þegar er búið að gera kvikmynd eftir henni. Þetta er þríleikur í anda hungurleikanna og efnið er í svipuðum dúr, bara aðeins öðru vísi útfært.
Þetta er framtíðarsaga þar sem Chicagoborg hefur verið skipt upp í fimm ólík fylki og tekur fólk ákvörðun við 16 ára aldur hvaða fylki það vilji tilheyra.
Mér fannst þetta skemmtilega útfært. Stúlkan Beatrice er sannfærandi sem afbrigðið sem ekki fellur að öllum hinum og það er gaman að fylgjast með hinum ólíku fylkjum hvernig þau eiga öll að vinna saman þrátt fyrir það hversu ólík þau eru.
Minnir svolítið á hópakenningar sem eru allsráðandi í dag, hópur verður að samanstanda af mismunandi manngerðum til þess að koma einhverju í verk.
Í þessari sögu er það hreinskilna fólkið sem segir alltaf satt, óeigingjarna fólkið sem fórnar sér fyrir aðra og sækist ekki eftir neinu fyrir sig, hugrakka fólkið sem er villtasta fólkið með tattúin og vopnin, samlynda fólkið sem er friðsælt og vill öllum vel og að lokum vitra fólkið sem veit allt.
Allir þessir verða að vinna saman til þess að allt gangi upp en hvað gerist þegar einn hópurinn vill meira af því sem er í boði? Já, um það snýst sagan.
Þetta er þægileg bók og fljótlesin enda flokkuð sem unglingabók (young adult) en fullorðnir lesendur ættu samt ekki að láta það fæla sig frá lestri hennar. Þetta er framtíðarsaga og sem slík mjög fín. Gef henni þrjár og hálfa stjörn.
[usr 3,5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.