Glansmyndasafnararnir eftir Jóanes Nielsen er ein af þessum bókum sem maður heldur áfram að hugsa um eftir að bókinni lýkur. Jóanes er færeyskur rithöfundur og bókin gerist í Færeyjum og Kaupmannahöfn.
Bókin fjallar um sex drengi sem voru í sama vinahópi sem börn. Þeir gengu í sama skólann og söfnuðu glansmyndum sem þeir röðuðu í til þess gerðar bækur. Sagan fylgir þeim eftir þar til þeir verða fullorðnir. Þetta eru sex ólíkir drengir og með ólíkar heimilisaðstæður og því verður líf þeirra sem fullorðinna manna einnig ólíkt. Þ.e.a.s þeirra sem ná fullorðinsaldri því lesandinn veit strax í upphafi sögunnar að þeir eiga ekki allir langt líf fyrir höndum.
Þetta er á köflum óþægileg saga en um leið er hún forvitnileg því þetta er veröld sem maður veit ekki svo mikið um jafnvel þó Færeyjar standi okkur nærri. Þetta virðist vera að mörgu leiti líkt Íslandi og um leið mjög ólíkt.
Það er ótrúlega sorglegt að fylgjast með sumum sögunum, hvernig allt virðist vera að ganga upp en svo kemur skellurinn og lesandinn situr eftir hálf forviða á því að hafa ekki séð þetta fyrir. Hvort það hefði kannski verið hægt að gera þetta aðeins öðru vísi.
Þetta er bók sem fjallar um flest það sem snýr að mannlegu eðli og fjölskyldum. Sex drengir sem sumir eiga vel stæða foreldra, aðrir eiga fátæka foreldra eða jafnvel enga og alast upp á munaðarleysingjaheimili hjá nunnunum. Þarna eru drengir sem eiga létt með læra og aðrir sem eiga erfiðara með það. Drengir sem hrífast af gagnstæðu kyni og dengir sem hrífast af sama kyni.
Ég veit ekki alveg hvort ég get sagt að þetta sé skemmtilegt saga því það virkar einhvern veginn öfugsnúið að finnast skemmtilegt að lesa um biturt líf annarra.
En þetta er mikil saga og ég hafði virkilegan áhuga fyrir örlögum þessara drengja og fjölskyldum þeirra því það stendur jú enginn einn þó svo virðist oft við fyrstu sýn. Ég ætla að gefa henni þrjár og hálfa stjörnu.
[usr 3.5]Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.