Ævintýraferð fakírsins sem festist inni í IKEA skáp er eftir franska höfundinn Romain Puértolas.
Þetta er ein af þessum bókum sem ég held að fólk annað hvort hati eða dýrki. Hún er skrifuð í svipuðum stíl og Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf.
Þetta er gamansaga í ádeilustíl og hér er m.a. verið að fjalla um örlög flóttafólks og hvernig það er sent fram og til baka um heiminn en alltaf er sýnin um fyrirheitna landið jafn sterk.
Fakírinn „Æ varst þú Kýrskýr“ er kominn til Parísar í örstutta ferð þar sem hann ætlar að fjárfesta í naglarúmi í IKEA. Ferð hans verður hins vegar æði skrautleg og hann endar á allt öðrum stað en hann lagði upp frá.
Hann hittir sígauna, flóttafólk, einmana konu og fleiri og fleiri. Hann er svikahrappur í upphafi en mýkist á leiðinni löngu og endar með að leita að ástinni en ekki naglarúminu.
Ágætis afþreying en ekki hlaupið eftir næstu
Þetta er allt í lagi bók en mér fannst hún ekki svona hrikalega drepfyndin eins og ég var búin að ímynda mér. Ég kem ekki til að hlaupa neitt spretthlaup eftir næstu bók sama höfundar en að því sögðu er þetta alveg ágætis afþreying.
Það eru ýmsar skemmtilegar mannlýsingar en mér fannst einna skemmtilegast að lesa um sígaunafjöldskylduna þar sem húsbóndinn keyrði leigubíl og svindlaði á öllum eins og hann gat. Varð svo alveg rasandi þegar svindlað var á honum sjálfum.
Gef henni þrjár stjörnur því mig langaði að vita hvað yrði um fakírinn í lokin, mér var ekki alveg sama um hann.
[usr 3,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.