Ærlegi Lærlingurinn fjallar um Sapna Sinha sem vinnur í raftækjabúð og framfleytir þannig frekri systur sinni og veikri móður.
Dag einn hefur einn ríkasti og valdamesti maður Indlands tal af henni og býður henni að gerast stjórnarformaður í fyrirtæki hans en fyrst verður hún að leysa sjö þrautir. Bókin verður á köflum það ótrúleg og yfirþyrmandi að mig langaði mest að hætta en ég var samt forvitin að finna út hvernig þetta færi hjá stúlkukindinni.
Það er gaman að lesa um Indland. Þetta er land mikilla andstæðna, þar eru menn svo ríkir að þeir geta gert það sem þeim sýnist og ráðið því sem þeir vilja eða menn eru svo fátækir að þeir verða að selja úr sér líffæri til að geta lifað.
Saphna sjálf finnst mér frekar ótrúverðug og systir hennar verri en bókin er samt skemmtileg og rennur ágætlega. Alveg þangað til í lokin en mér fannst endirinn eins og Vikas hefði verið búinn að fá nóg og nú ætti sagan að klárast. Hefði alveg mátt leggja aðeins meira í loka plottið.
Ærlegi lærlingurinn eftir Vikas Swarup er ágætis skemmtun. Þetta er þriðja bók höfundar sem er þýdd á íslensku og ég held að það sé alveg öruggt að það verður gerð kvikmynd eftir þessari bók og hún verður pottþétt skemmtileg.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.