Ég er ein af þessum konum sem get ekki sofnað nema að hafa gluggað í bók uppi í rúmi, rétt fyrir svefninn, og teygi mig svo letilega eftir litla náttborðslampanum og hverf í draumheima.
Því var eitthvað svo heimilislegt við það að lesa bók með titlinum Áður en ég sofna. Mér fannst þessi bók eiga einstaklega vel heima á náttborðinu mínu og hlakkaði til lestursins.
HVER ER NAKTI MAÐURINN Í RÚMINU?
Söguþráðurinn er á þá leið að hin miðaldra Christine Lucas vaknar á hverjum morgni eins og óskrifað blað því hún þjáist af minnisleysi; hún veit hvorki hver hún er né hvar hún er stödd.
Og maðurinn sem liggur við hliðina á henni í rúminu er bláókunngur. Hún er því skelfingu lostin þegar hún fer fram á baðherbergi á morgnanna en þar mætir henni fullkomlega framandi sjón í speglinum. Hún kannast ekkert við gömlu konuna sem blasir þar við henni því í huganum er hún vart af unglingsaldri; ólífsreynd og … hrein mey. Hún er smeyk við sína eigin húð á handarbökunum sem eru farin að bera aldursmerki.
NÆTURSVEFNINN RÆNIR MINNINGUNUM
Lesandinn kemst fljótlega að því að nætursvefninn rænir Christine öllum minningum hennar. Þetta gerir að verkum að hún er berskjölduð gagnvart misnotkun og óheiðarleika og eftir því sem líður á lesturinn rennir mann í grun að maðurinn hennar, Ben, sé ekki allur þar sem hann er séður.
Christine er alveg háð honum því Ben er sá sem af stakri þolinmæði útskýrir fyrir henni á hverjum morgni hvernig málum er háttað. Hann sýnir Christine ljósmyndir af þeim hjónakornum við ýmis tækifæri, myndir sem virðast teknar yfir langt tímabil.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=2ZAKsO8wGG4[/youtube]
TENGING VIÐ TÝNDA FORTÍÐ
En Christine eignast bandamann í lækninum Nash sem hefur mikinn áhuga á að aðstoða hana við að fá minnið á ný. Ben hafði neitað honum um að hafa samband við eiginkonuna minnislausu en læknirinn gerir það nú samt og hvetur Christine til þess að skrifa dagbók á hverjum degi og fela hana fyrir Ben. Dagbókin reynist tenging við týnda fortíð. Doktorinn góði hringir svo á hverjum morgni þegar blessuð konan er alveg ráðvillt og hefur ekki hugmynd um hver hún er fyrr en hún les dagbókarfærslur síðustu daga sem eru skrifaðar með rithönd sem hún þekkir ekki …
Þessi fyrsta bók S.J.Watson hefur setið á metsölulistum víða um heim og þar er Ísland engin undantekning. Það sem sérstakt við þessa frumraun er að höfundur var á námskeiði hjá Faber Academy fyrir ritöfunda sem ber heitið Writing a Novel. Það er ákveðið vinnuferli sem þræðir hina ýmsa kima skáldsagnaritunar. Áður en ég sofna er afraksturinn. Kvikmyndarétturinn hefur þegar verið seldur og var kaupandinn enginn annar en Ridley Scott.
HEILLANDI OG DULARFULL
Ég er ekki sammála því að hér sé um spennuhrollvekju að ræða; alla vega var það ekki tilfinningin sem ég hafði við lesturinn. Að mínu mati er bókin lipurlega skrifuð og með lágstemmdri spennu – sem vissulega eykst þó eftir því sem líður á bókina. Þessi tegund spennu, í bland við mjög áhugavert efni, er einmitt það sem heillaði mig.
Þarna er ekki á ferð brjáluð spenna sem hélt mér vakandi fram eftir nóttu, fremur var um að ræða heillandi og dularfull bók sem ég hlakkaði til að njóta … áður en ég sofnaði.
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.