Bókin Að gæta bróður míns eftir finnska höfundinn Antti Tuomainen kom mér skemmtilega á óvart.
Þetta er lítil og nett saga og ótrúlega skemmtilega skrifuð að mínu mati. Hún fjallar um Klaus Haapala sem á skömmum tíma missir vinnuna, kemst að því eiginkonan er ekki öll þar sem hún er séð, bróðir hans er handtekinn fyrir sölu á fíkniefnum og yfirmaðurinn fyrrverandi er myrtur.
Er hægt að vera óheppnari í lífinu?
Bætið í þetta dass af afa sem af einskærri óheppni drepur fjölda manns og pabba sem fer ekki alltaf beinu leiðina í lífinu.
Söguþráðurinn minnir á geggjaðan farsa en þetta er skrifað af næmni og kímni og ég gat ekki annað en vorkennt heiðarlega fasteignasalanum Klaus sem reynir að hjálpa bróður sínum úr þessu klandri þó hann eigi fullt í fangi með sitt eigið líf.
Höfundur kafar þó ekki neitt djúpt í sálarlíf persónanna og sumar virðast nú ekki vera neinar mannvitsbrekkur en mér finnst það ekki koma að sök.
Þetta er skemmtileg saga vel, skrifuð og heldur manni við efnið. Ég gef henni fjórar stjörnur
[usr 4.0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.