5:2 mataræðið með Lukku í happ eftir Unni Guðrúnu Pálsdóttur er mjög falleg og aðgengileg bók um föstumataræðið 5-2 þar sem tvo daga vikunnar er borðað 500-600 hitaeininga mataræði en hina fimm dagana er borðað eftir hefðbundnu mataræði.
Það má endalaust deila um það hvort þetta mataræði er hollt, hvort það virki til að halda fólki grönnu eða fólki almennt líði betur.
Það sem upp úr stendur er að þessi bók er einstaklega vel gerð. Myndirnar eru virkilega vel uppsettar og flottar þannig að þær kalla á mann að prófa að elda eða setja saman það sem þarna er fram sett. Uppskriftirnar eru einnig tiltölulega einfaldar þannig að ekki þarf ekki þarf kokkapróf til að fara eftir þeim.
Hverjum hefði t.d. dottið í hug að setja hafragraut í staup og bera það þannig fram? Ég get fyllilega viðurkennt að hafragrautur er ekki mín uppáhaldsfæða en myndirnar af hindberjahafragrautnum og hafragraut með appelsínum og trönuberjum eru virkilega lokkandi. Bera það fram í svona staupi eða fallegu glasi er punkturinn yfir i-ið. Þetta er bara eins og borða morgunmat á flottum veitingastað.
Ekki eru safarnir síðri. Í öllum mögulegum litum og fallegum glösum og könnum. Þetta er bara ekki hægt að standast. Sólskinssafinn kom öllum á mínu heimili í sólskinsskap og hann verður svo sannarlega gerður aftur. Þegar ég drakk hinn græna Hulk hafði ég á tilfinningunni að ég væri að innbyrða súper holla fæðu og það er sko ekki slæm tilfinning.
Vorrúllurnar féllu líka í kramið og vefjurnar. Fleira er ég ekki búin að prufa en ég er svo sannarlega á leiðinni að prufa allt hitt líka. Þetta eru flottar og girnilegar uppskriftir og alltaf gefið upp hitaeiningafjöldi í hverjum skammti sem er stór plús að mínu mati.
Í bókinni eru einnig upplýsingar um mataræði og föstur, hitaeiningatafla með lista yfir hitaeiningar í flestum matvælum og margt fleira. Í heildina sagt þá er þetta eiguleg og flott bók sem ég á eftir að nota mikið.
Ég gef þessari bók hiklaust fjórar og hálfa stjörnu.
[usr 4,5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.